Lagfæringar á Austurleið hagsmunamál allra Austfirðinga

Múlaþing og Fljótsdalshreppur hyggjast sameina krafta sína til að þrýsta á um vegabætur á Austurleið á Brúaröræfum.

Austurleiðin heitir vegurinn úr Fljótsdal, upp að og yfir Kárahnjúkavirkjun og þaðan yfir í Efri-Jökuldal. Stór hluti þess vegarkafla, frá virkjun og niður í Jökuldalinn er enn grófur og á köflum erfiður malarvegur sem lítt er við haldið.

„Það sem eru sameiginlegir hagsmunir okkar og Austfirðinga allra er að ná skaplegum vegi þessa leiðina. Yfir Fljótsdalsheiðina, áfram í Kárahnjúka og svo alla leið niður í Brú,“ segir Helgi Gíslason, sveitarstjóri Fljótsdalshrepps. „Hluti hans úr Fljótsdal og að virkjuninni er góður en bæta þarf veginn þaðan í frá töluvert ef vel á að vera því þannig verður til góður hringvegur um einhverjar mestu náttúruperlur Austurlands. Þannig má sjá Hengifoss í Fljótsdalnum, vitna Snæfellið uppi á heiðinni og ná svo auðveldlega að Stuðlagili vandræðalaust. Þetta er mikið hagsmunamál fyrir bæði sveitarfélögin og ferðaþjónustuna alla.“

Austurfrétt veit dæmi þess að bæði erlendir og innlendir ferðamenn sem ætluðu þessa hringleið í fyrrasumar snéru beinlínis við eftir að hafa ekið þennan slæma kafla um hríð. Djúpar holur og pollar og mikið af grjóti á veginum.

Helgi segir að þreifingar séu milli Múlaþings og Fljótsdals um að ganga saman í að fá fjármagn í þetta verkefni en einnig sé brýnt að vegabætur verði gerðar í Fljótsdalnum sjálfum.

„Við erum hér með glæsilegan Strútsfoss inn af Suðurdalnum en sú gönguleið nýtur vaxandi vinsælda og í Norðurdalnum er auðvitað Óbyggðasetrið og þar risið hótel að auki. Það er auðvitað krafa að vel fært sé á báða staðina eins og kostur er en það er ekki endilega raunin alltaf í dag.“

Með lagfæringum væri hægt að skapa kjöraðstæður fyrir hringleið úr Jökuldal í Fljótsdal en á þeirri leið má sjá allmargar náttúruperlur fjórðungsins eins og Stuðlagilið, Hengifoss og Snæfell í nærmynd.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.