Lagabreytingar hafa áhrif á Jónsver: Ekki hægt að taka og draga menn til vinnu

Forsvarsmenn Jónsvers á Vopnafirði hafa að undanförnu metið áhrif flutnings atvinnumála fatlaðra til Vinnumálastofnunar og lækkunar frítekjumarks í 25 þúsund krónur. Framkvæmdastjórinn á ekki von á að lækkunin auki aðsókn öryrkja í vinnu.

„Ég á ekki von á að þetta verði nein sérstök hvatning en það er ekki hægt að draga menn til vinnu,“ segir Ólafur Valgeirsson, framkvæmdastjóri Jónsvers. Fyrirtækið er sjálfseignarstofnun, stofnað af Félagi eldri borgara og deild Sjálfsbjargar á Vopnafirði. Það verður tólf ára í næsta mánuði og hefur á starfstíma sínum veitt fjölda einstaklinga atvinnu sem ekki hafa átt auðvelt með að fóta sig á hinum hefðbundna vinnumarkaði.

Um áramót urðu þær breytingar á lögum um almannatryggingar að frítekjumark bótaþega var lækkað niður í 25.000 krónur á mánuði fyrir skatt. „Okkur hefur ekki gengið neitt of vel að fá fólk og þessar breytingar verða vart til að auka áhugann.“

Detta út krónur sem skipt hafa máli

Þá hafa forsvarsmenn fyrirtækisins í samvinnu við sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps reynt að meta áhrif flutnings atvinnumála fatlaðra til Vinnumálastofnunar. Jónsver hefur verið með samninga við félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs og þar áður Svæðismiðstöð fatlaðra um styrk gegn því að vera opið fyrir skjólstæðinga félagsþjónustunnar og var hann ætlaður í verkstjórn.

Eftir flutninginn verður hægt að fá endurgreiðslu frá Vinnumálastofnun í launakostnað einstaklingsins en verkstjórn hans verður ekki launuð innan fyrirtækisins. „Það detta út þessar fáu krónur frá félagsþjónustunni sem riðið hafa baggamuninn.“

Vilja halda Jónsveri gangandi

Ólafur segir að skoðaðir verði möguleikar á fleiri verkefnum og jafnari tekjum yfir árið. Stærsta verkefnið hefur verið framleiðsla vindpoka fyrir flugvelli en salan gengur yfir á stuttum tíma. „Við viljum gjarnan halda þessu fyrirtæki gangandi. Það er á margan hátt einstakt fyrirbrigði og hefur veitt fólki atvinnu sem hefur átt erfitt á hinum almenna vinnumarkaði.“

Hann segir meðal úrræða vera að fá fulltrúa Öryrkjabandalagsins til að kynna breytingarnar. Hann leggur einnig áherslu á þörf fyrir félagsskapinn. „Það verður enginn ofsæll af laununum sem við borgum og maður veit að þessar skerðingar geta komið fólki illa. Ég hefði samt alltaf haldið að það væri betra fyrir einstaklinginn að komast í félagsskapinn.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.