Lægra verð skilar fleirum í flugið

Vopnfirðingar nýta sér í auknu mæli að fljúga til Akureyrar eftir að fargjöld þangað lækkuðu með nýjum samningi við ríkið í byrjun árs 2017. Flugið eru einu almenningssamgöngurnar sem íbúar staðarins hafa aðgang að.

„Þetta er mjög mikilvæg leið fyrir okkur. Þetta eru einu almenningssamgöngurnar sem við höfum.

Það tekur okkur 2,5 tíma að keyra á Akureyri en svo er fullorðið fólk sem hefur ekki bíl. Sjúkrahúsið á Akureyri sinnir okkur og þess vegna verðum við að hafa þessa tengingu,“ segir Guðrún Anna Guðnadóttir í viðtali í þættinum Að Norðan á sjónvarpsstöðinni N4.

Flogið er frá Akureyri til Vopnafjarðar og þaðan áfram til Þórshafnar áður en haldið er aftur til Akureyrar alla virka morgna. Flugið fer frá Akureyri eftir að morgunvélin úr Reykjavík er lent þar og er komið aftur um klukkan ellefu, þannig að hægt er að ná síðdegisflugi suður. „Þú getur verið komin til Reykjavíkur fyrir hádegi en það tekur alltaf 8-9 tíma að keyra,“ bendir Guðrún Anna á.

Áætlunarflug hefur verið milli Akureyrar og Vopnafjarðar frá 1960 en Norlandair hefur sinnt því frá 1974. Leiðin er skilgreind sem almenningssamgöngur og styrkt af ríkinu. Þeim sem nýta sér flugið hefur fjölgað eftir að nýr samningur var gerður við Vegagerðina um þjónustuna og tók gildi 2017. Á tímabilinu 2012-2016 fækkaði farþegunum.

„Já, ég myndi segja að flugið væri vel nýtt. Það eykst alltaf. Verðið lækkaði fyrir tveimur árum og það tók fólk tíma að átta sig á því,“ segir Guðrún.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.