Kyndingarkostir kynntir fyrir íbúum Seyðisfjarðar

„Það má nú kannski segja að það sé mín eigin tilfinning en ekki kannski formleg niðurstaða,“ segir Óli Metúsalemsson, byggingaverkfræðingur hjá verkfræðistofunni EFLU, um það mat að miðlæg varmadæla sé ekki sú kyndingarlausn sem vonast var eftir fyrir Seyðfirðinga.

Hann hefur kynnt niðurstöður úttektar verkfræðistofunnar á framtíðar kyndingarkostum fyrir Seyðfirðinga fyrir Hitaveitu Egilsstaða og Fella (HEF) og Múlaþingi en lengi hefur legið fyrir að RARIK vill hætta rekstri fjarvarmaveitu í bænum enda sé rekstrargrundvöllur fyrir slíku löngu brostinn. Til stóð að loka henni í árslok 2019 en tímabundið horfið frá því.

Greiningin leiðir í ljós meðal annars að hitaveita um komandi Seyðisfjarðargöng sé hagkvæm lausn til lengri tíma litið og þá sérstaklega til notenda sem ekki njóta niðurgreiðslna af neinu tagi. Fyrir aðra sé ekki ýkja mikill munur á hitaveitu og niðurgreiddri beinni rafhitun. Hið sama gildi um loft-í-vatn varmadælur í hvert hús en stærri notendur geta notið góðs af þeim umfram hitaveitu.

Óli segir að brátt þurfi að finna einhverjar lausnir því RARIK íhugi að hætta rekstri fjarvarmaveitu sem allra fyrst en fyrirséð er að Fjarðarheiðargöngin verði ekki tilbúin fyrr en að sjö árum liðnum hið minnsta og einhvern veginn þurfi að brúa bilið þann tíma.

Múlaþing hyggst kynna niðurstöðurnar á íbúafundi strax í næstu viku.

Hitaveita fyrir Seyðfirðinga gæti orðið fýsilegur kostur þegar Fjarðarheiðargöng eru orðin að veruleika en þó ekki fyrir alla í bænum. Mynd GG

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.