Krefjast þess að málin verði endurskoðuð strax

„Það er því ekki í boði að okkar mati að loka neyðarbrautinni nema þá að önnur ásættanleg lausn finnist. Að mati sveitarfélagsins verður Reykjavíkurborg því að endurskoða ákvörun sína um lokun neyðarbrutarinnar,“ sagði Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, í samtali við Austurfrétt, en bæjarráð Fjarðabyggðar ályktaði um málefni Reykjavíkurflugvallar á fyrsta fundi ársins.



„Það er ekki okkar hlutverk að setja fjármagn í heilbrigðismál en sá málaflokkur er á forræði ríkssins. En við urðum að koma flugbrautinni við umdæmissjúkrahúsið í Neskaupstað í viðunandi ástand með aðstoð heimamanna. Þannig erum við að leggja okkur fram um að auka öryggi íbúanna hér á svæðinu þegar kemur að þessum þætti heilbrigðisþjónustunnar,“ segir Páll Björgvin.

Páll Björgvin segir bæjarráð gera þá körfu til stjórnenda Reykjavíkurborgar að koma sínum enda í lag þ.e. að opna neyðarbrautina á Reykjavíkurflugvell aftur.

„Við þurfum að standa saman í þessu landi, meðan annars til þess að geta boðið upp á grundvallar lífsskilyrði á landsbyggðinni, þar sem verðmætin í þessu landi verða nú af stórum hluta til. Og höfuðborgin okkar hefur miklum skyldum að gegna gagnvart okkur þegar kemur að þessum málum, þar sem hátæknisjúkrahúsið er staðsett og stór hluti stjórnsýslunnar.“

Bókun bæjarráðs er eftirfarandi;

„Bæjarráð mótmælir harðlega hvernig komið er fyrir sjúkraflugi á Íslandi með lokun Reykjavíkurborgar á neyðarbraut Reykjavíkurflugvallar. Það má aldrei gleymast að það er sameiginleg ábyrgð allrar þjóðarinnar að öryggi og heilsu íbúa landsins sé ekki stefnt í tvísýnu.

Sveitarfélagið Fjarðabyggð hefur axlað sína ábyrgð í þessum málum með aðkomu sinni og aðila í heimabyggð, að endurbyggingu neyðarbrautar við Umdæmissjúkrahús Austurlands í Neskaupstað.

Bæjarráð Fjarðabyggðar hvetur því Borgarstjórn Reykjavíkur að endurskoða strax ákvörðun sína um lokun neyðarbrautarinnar. Jafnframt er mikilvægt að ríkisvaldið komi að málinu, þannig að það verði leyst til framtíðar.“

 

Norðfjarðarflugvöllur

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.