Kosningavökur búnar áður en byrjað verður að telja

Ekki er reiknað með að úrslit í kosningum til sveitastjórnar og heimastjórna í nýju sveitarfélagi á Austurlandi liggi við fyrr en eftir miðnætti. Íbúar í sveitarfélaginu ganga að kjörborðinu í dag.

„Ef allt gengur vel ætti niðurstaða geta fengist milli klukkan tólf á miðnætti og klukkan eitt. Við segjum þetta með hóflegri bjartsýni. Villur í afstemmingu geta tafið verkið verulega,“ segir Bjarni G. Björgvinsson, formaður yfirkjörstjórnar.

Þetta þýðir það meðal annars að hvers konar kosningavökur verða búnar áður en nokkrar tölur berast, en sem kunnugt er má ekki hafa skemmtistaði opna lengur en til klukkan ellefu að kvöldi.

Á kjörskrá eru 3518 manns, flestir á Fljótsdalshéraði 2.597 talsins, 513 á Seyðisfirði, 314 á Djúpavogi og 94 á Djúpavogi. Karlar eru 1.804 eða 51,2% en konur 1714 eða 48,8%.

Ágæt utankjörfundarsókn

Kosning hófst klukkan níu á Borgarfirði og Fljótsdalshéraði en á Djúpavogi og Seyðisfirði opnar klukkan tíu. Henni lýkur svo á Borgarfirði klukkan 17 og Djúpavogi klukkan 18 en ekki fyrr en tíu í kvöld á Seyðisfirði og Héraði.

Utankjörfundaratkvæðagreiðslu lauk í gær. Tæplega 50 manns greiddu atkvæði á sýsluskrifstofunni á Seyðisfirði og 121 í útibúinu á Egilsstöðum og hjúkrunarheimilinu Dyngju. Þangað bárust einnig 10 aðsend erindi. Tæplega 70 manns greiddu atkvæði á Bókasafni Héraðsbúa. Einnig var hægt að kjósa hjá sýslumönnum um allt land og hreppsskrifstofunum á Borgarfirði og Djúpavogi en Austurfrétt hefur ekki tölur þaðan.

Hægt verður að kjósa utan heimabyggðar til sveitarstjórnar í dag með svokölluðum millikjördeildarfærslum en ekki til heimastjórna. Kjósendur þar rita nafn og lögheimili eins einstaklings á blað. Tæknilega séð eru allir á kjörkrá í framboði en 18 einstaklingar hafa gefið kost á sér. Kynningar á þeim má lesa á svausturland.is.

Atkvæðin frá Seyðisfirði síðustu í hús

Öll atkvæði verða talin í Menntaskólanum á Egilsstöðum þar sem yfirkjörstjórn hefur aðsetur. Ekki er búist við að það verði fyrr en um ellefu, eða þegar atkvæðin frá Seyðisfirði verða komin í hús. Bjarni kveðst bjartsýnn á að þá gangi talning hratt fyrir sig.

Atkvæði til heimastjórna verða talin á sama tíma eftir sem kostur er. Búist er við að niðurstöður beggja kosninganna verði tilkynntar um leið. Ekki verða birtar neinar millitölur, aðeins lokatölur. „Þetta tekur ekki það langan tíma,“ segir Bjarni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.