Körfubolti: Höttur tapaði stórt í Keflavík

Höttur tapaði í gærkvöldi illa, 110-71, fyrir Keflavík í úrvalsdeild karla í körfuknattleik. Liðið á mikilvægari leik í baráttunni um síðasta sætið í úrslitakeppninni á fimmtudag.

Höttur vann fyrri leik liðanna í deildinni á Egilsstöðum en tapaði illa í bikarnum og svo að segja aldrei séns í gærkvöldi. Strax eftir tvær mínútur breytti Keflavík stöðunni úr 8-5 í 20-9 og var yfir eftir fyrsta leikhluta 35-16.

Höttur átti annan slæman kafla í öðrum leikhluta þegar Keflavík jók forustuna úr 40-24 í 51-24. Staðan í hálfleik var 62-39. Keflavík keyrði sóknarleikinn af miklum hraða og Hetti gekk illa að stilla upp í varnarstöðu. Sérstaklega í fyrsta leikhluta tók liðið ótímabær skot eða úr vondri stöðu.

Úrslitin voru því svo að segja ráðin. Keflavík var 84-56 yfir eftir þriðja leikhluta en í þeim fjórða hélst munurinn í horfinu og endaði 110-71. Þar voru liðin farin að skipta inn leikmönnum sem alla jafna spila minna. Þeir Jóhann Einarsson, Sveinbjörn Fróði Magnússon og Óliver Árni Ólafsson spiluðu allir rúmar tíu mínútur í gær. Óliver Árni skoraði 7 stig. Gísli Þórarinn Hallsson var annars stigahæstur Hattar með 13 stig.

Ástæða var til að skipta út leikmönnum, bæði vegna frammistöðunnar, en líka vegna þess að Höttur tekur á fimmtudag á móti Haukum. Hafnarfjarðarliðið er í tíunda sæti deildarinnar en Höttur í því áttunda, sem gefur rétt í þátttöku í úrslitakeppninni. Höttur á eftir að spila við lið sem eru í kringum það í deildinni.

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, sagði frammistöðu liðsins hafa verið flata, andlausa og yfir höfuð hörmulega í viðtali við Vísi eftir leikinn.

Hattarliðið hefur glímt við meiðsli og veikindi að undanförnu. Miðherjinn Nemanja Knezevic var í hópnum í gærkvöldi en hann hefur verið veikur. Matej Karlovic var líka á skýrslu en hann meiddist í baki í desember. Hvorugur spilaði þó.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.