Körfubolti: Allt í baklás í þriðja leikhluta

Afleitur þriðji leikhluti gerði út af við Hött sem heimsótti topplið Tindastóls á Sauðarkróki í úrvalsdeild karla í körfuknattleik karla í gærkvöldi. Liðið er enn án sigurs eftir átta deildarleiki.

Jafnt var með liðunum og var Höttur meira að segja yfir á tímabili snemma í öðrum leikhluta, mest 24-28. Heimamenn sigu hins vegar fram úr aftur og voru 45-44 yfir í hálfleik.

Í þriðja leikhluta hrökk allt í baklás hjá Hetti enda unnu heimamenn hann 24-6. Hattarmenn voru með fyrstu tvær mínúturnar en þá lokaðist vörn Tindastóls. Næstu stig Hattar komu ekki fyrr en eftir eina og hálfa mínútu í fjórða leikhluta og þá hafði staðan breyst úr því að vera 56-50 í 71-50.

Leikurinn hafði líka breyst úr því að vera í járnum yfir í öruggan sigur Tindastóls. Tindastóll hélt áfram að auka við forskotið og vann leikinn að lokum 91-62. Kevin Lewis var stigahæstur Hattarmanna með 16 stig.

Ekkert verður leikið í vikunni og hefur Höttur því tíu dýrmæta daga til að undirbúa mikilvægan leik við hitt botnliðið, Þór Þorlákshöfn. Þór tekur á móti Val í kvöld sem verið hefur við botninn.

Eftir Þórsleikinn tekur Höttur á móti KR og heimsækir Njarðvík áður en kemur að jólafríi. Keppnistímabilið verður þá hálfnað. Þá heimsækir Höttur 1. deildar lið Breiðabliks í 8 liða úrslitum bikarkeppninnar annað hvort 10. eða 11. desember.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.