Kjarasamningar samþykktur hjá AFLi

Félagsmenn í AFLi Starfsgreinasambandi samþykktu nýja kjarasamninga Starfsgreinasambandsins og Landssambands íslenskra verslunarmanna með yfirgnæfandi meirihluta. Formaður félagsins segist þokkalega sátt við samninginn.

Af þeim félögum í AFLi sem tóku afstöðu til samnings Starfsgreinasambandsins sögðu 79,11% já, 15,47% nei og 5,42% skiluðu auðu. Í samantekt þess kemur fram að á landsvísu hafi 80% þeirra sem greiddu atkvæði samþykkt samninginn.

Kjörsókn hjá AFLi var 22,45%, sem telst gott því hún var aðeins meiri í tveimur af 19 aðildarfélögum SGS. Að meðaltali var hún 12,78%.

Kjörsókn var heldur meiri meðal félaga í verslunarmannadeild, sem greiddu atkvæði um samning Landssambands íslenskra verslunarmanna við SA, eða 28,33%. Þar sögðu 80% já, 10 nei og 10% skiluðu auðu.

„Ég hefði vissulega viljað sjá meiri þátttöku en niðurstaðan er afgerandi,“ segir Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs.

Hún segist ekki hafa neinar ákveðnar skýringar á þátttökunni, líklegast séu þar nokkrir samverkandi þættir. Þetta var í fyrsta skipti sem AFL stendur fyrir rafrænni kosningu en félagsmenn hafa til þessa kosið í póstkosningu.

Hefði viljað sjá nýja launatöflu

Hjördís Þóra, sem var varaformaður samninganefndar SGS, kveðst þokkalega sátt við samninginn. „Ég hefði viljað sjá breytingar eins og nýja launatöflu sem unnið var í á tímabili en þetta var niðurstaðan.“

Jens Garðar Helgason, varaformaður Samtaka atvinnulífsins, segir ánægjulegt að samningar séu í höfn. „Það var lögð mikil vinna í þessa samninga og horft til ákveðinna þátta sem skipta sérstaklega máli fyrir þá tekjulægstu, sem var meginmarkmiðið. Í samningunum eru einnig hvatar fyrir aðra hópa ef hagvöxtur á mann nær ákveðnum viðmiðum.“

Iðnaðarmenn undirbúa aðgerðir

En þótt þessum samningar hafi verið samþykktir er kjaraviðræðum félagsmanna AFLs ekki lokið. „Það er ósamið við iðnaðarmenn og þar ganga viðræður hægt. Þeir hafa ekki fallist á þá aðferðafræði sem viðhöfð var í hinum samningunum. Þar eru menn að undirbúa aðgerðir en tímasetningar þeirra liggja ekki fyrir,“ segir Hjördís Þóra.

„Jafnframt eru hafnar viðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga og ríkið. Þeir samningar voru ekki lausir fyrr en í lok mars þannig viðræður gátu ekki hafist fyrr en nú í apríl. Síðan eru á borðinu ýmsir smærri samningar eins og við Bændasamtökin og Edduhótelin.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.