Kata Jak: Ekki frekari skattahækkanir

katrin_jakobsdottir_vg_03042013.jpg
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, segir jafnvægi vera komið á í ríkisfjármálum. Ekki sé von á frekari skattahækkunum á almenning. Áætlanir gera ráð fyrir batnandi hag á komandi kjörtímabili þar sem jafnvægi sé að nást í ríkisfjármálunum. Til greina kemur að lækka skatta á tekjulægri hópa ef ná þarf fram jöfnuði.

Þetta kom fram í máli Katrínar á opnum fundi hreyfingarinnar á Egilsstöðum í vikunni. Þar var kynntar helstu áherslur framboðsins í ríkisfjármálum, velferðar og menntamálum. Í kynningu Katrínar segir að áætlanir Vinstri grænna gerir ráð fyrir að 50-60 milljarða króna svigrúmi í ríkisfjármálum á næsta kjörtímabili.

Gert sé ráð fyrir óbreyttu skattakerfi og engum skattalækkunum á lág- og millitekjuhópa. Skattkerfið verði notað til að tryggja jöfnuð í samfélaginu. Skattatlækkanir á lág- og millitekjuhópa verði skoðaðar fari laun á skrið í hátekjuhópum. 

„Menningin er ekki bara munaður“

Í þessum áætlunum er búist við auknum tekjum ríkissjóðs og landsframleiðslu. Enginn frekari niðurskurður verði í heilbrigðis- mennta og velferðarmálum. Minnst er á auknar tekjur af auðlindarentu í efnahagsáætlun VG.

„Við byggjum á spám Hagstofunnar um 2% hagvöxt. Hann verður 1,6% í ár. Aukningin af Bakka eru 0,3%. Vöxturinn byggir ekki á einni framkvæmd umfram aðrar. Við byggjum á fjölbreytni. 

Umfang og velta skapandi greina hafa verið metnar á 189 milljarða króna. Opinbert framlag eru bara 20 milljarðar, restin er verðmætasköpun. Menningin er ekki bara munaður.“

Tvær leiðir færar til að nýta krónueignir

Annað sem gæti styrkt ríkisfjármálin á komandi tímabil væru tekjur af krónueignum kröfuhafa bankanna sem töluvert hafa verið í umræðunni að undanförnu. Innan stjórnkerfisins séu möguleikarnir skoðaðir.

„Það eru tvær leiðir. Annars vegar útgönguskattur og hins vegar að ríkið gerist milliliður í viðskiptum. Það er óvíst hversu miklir fjármunir þarna leynast,“ sagði Katrín en nefndi að tekjur úr þessari átt gætu nýst til uppgreiðslu á lánum ríkissjóðs sem enn frekar myndu létta undir í ríkisrekstrinum. „Við erum að greiða 90 milljarða króna af lánum á hverju ári.“

Rétt að styrkja almenningssamgöngur í Reykjavík

Töluvert var rætt um samgöngumál á fundinum. Katrín sagði mikilvægt að móta framtíðarsýn um jarðgöng. Þá nefndi hún að mikilvægt væri að náðst hefði samkomulag milli Reykjavíkurborgar og ríkisins um að ríkið legði milljarð í almenningssamgöngur í borginni fremur en ráðast í nýframkvæmdir. 

Stofnbrautirnar Miklabraut og Sæbraut tilheyra ríkinu og hefur það til dæmis greitt uppbyggingu mislægra gatnamóta við þær brautir. „Ég held að þetta hafi verið hárrétt ákvörðun. Helmingur af landinu í borginni fer undir bíla og bílastæði. Það er ekki mannvænt samkomulag.“

Nýju framboðin sækja í fylgi sem annars hefði verið VG

Katrín tók við formennsku í flokknum af Steingrími J. Sigfússyni í lok febrúar. Mikil átök hafa verið innan flokksins á kjörtímabilinu. Fylgið hefur hrunið af honum og framboð eins og Alþýðufylkingin og Regnboginn byggja á lykilmönnum sem áður tilheyrðu VG.

„Það hefur verið sérstakt andrúmsloft í stjórnmálunum að undanförnu. Það eru mörg ný framboð og þau herja fyrst og fremst á fylgi vinstra megin við miðju. Hreyfing á fylgi er meiri en oft áður og ég finn að sum þessara nýju framboða sækja talsvert í það fylgi sem annars hefði verið okkar.“

Hún virtist annars telja að flokkurinn væri að rétta úr kútnum. „Hreyfingin mældist með 7% þegar ég tók við og er komin í 8,5% í nýjustu könnunum þannig ég hlýt að vera hress með það.“

Aðspurð um aðgerðir til að brúa gjá milli þjóðar og þings svaraði hún að sú gjá væri væntanlega úr sögunni þar sem „allir kjósendur væru komnir í framboð.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.