Karlmaður á þrítugsaldri í haldi lögreglu: Yfirheyrslur að hefjast

bonusblokk_07052013_0052_web.jpgLögreglan hefur karlmann á þrítugshaldi í haldi í tengslum við rannsókn á andláti karlmanns á sjötugsaldri í fjölbýlishúsi á Egilsstöðum í morgun.

Í samtali við Austurfrétt sagði Jónas Wilhelmsson, yfirlögregluþjónn á Eskifirði, að maðurinn væri í haldi þar til að lögreglan gæti „yfirheyrt hann um ferðir hans í nótt.“ Hann verður yfirheyrður síðar í dag og hefur honum verið tilnefndur verjandi.

Samkvæmt heimildum Austurfréttar er þar um að ræða mann sem hafði ónáðað nokkra íbúa í blokkinni í gærkvöldi. Jónas staðfesti að lögreglan hefði talað við manninn um miðnættið.

Embætti Lögreglustjórans á Eskifirði, fer í samvinnu við tæknideild Lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu með rannsókn þess sem nefnt hefur verið „voveiflegt mannslát“ í fjölbýlishúsinu Blómvangi 2, svokallaðri Bónusblokk, á Egilsstöðum. Hinn látni var á sjötugsaldri. Báðir mennirnir bjuggu í blokkinni.

Tíu manns starfa við rannsóknina sem að sögn Jónasar gengur frekar vel.  Lögreglan var kölluð að blokkinni upp úr klukkan átta í morgun og maðurinn handtekinn skömmu síðar.

Íbúi í húsinu sagði í samtali við Austurfrétt að á níunda tímanum í morgun hefði verið mikið af sjúkra- og lögreglubílum í kringum blokkina og fólki afar brugðið.

--17:30
Tæknimenn frá lögreglunni hafa verið við rannsókn á svölunum í íbúð hins látna síðustu klukkutímana.
 
--18:55
Í samtali við Austurfrétt staðfesti Jónas Wilhelmsson að rannsókninni miðaði vel. Yfirheyrslur væru að fara að hefjast og að þeim loknum yrði ákveðið hvort farið yrði fram á gæsluvarðhald yfir manninum sem er í haldi.
 
bonusblokk_07052013_0001_web.jpg
 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar