Kanna skráningu starfsfólks á vinnustöðum: Vonum að við finnum ekki neitt

Vinnumálastofnun í samvinnu við stéttarfélögin kannar nú skráningu starfsmanna á vinnustöðum til að fyrirbyggja svarta atvinnustarfsemi. Verkefnisstjóri hjá stofnuninni á Austurlandi segir atvinnurekendur almennt taka vel í heimsóknirnar.


„Þetta eftirlit er komið til að vera. Því er meðal annars ætlað að fyrirbyggja svarta atvinnustarfsemi og mannsal. Við höfum ekki fundið neitt enn hér eystra og vonum að við finnum ekki neitt,“ segir Stefán Þór Hauksson, verkefnisstjóri Vinnumálastofnunar á Austurlandi.

Lög um vinnustaðaskírteini voru samþykkt árið 2010. Stefán segir athyglina nú beinast að fyrirtækjum í verktakastarfsemi og ferðaþjónustu. Ekki því menn reikni með að þar sé eitthvað misjafnt í gangi heldur hafi orðið hröð uppbygging og hlutir sem skírteinin kunni hafa hafa gleymst. „Við erum að minna á okkur.“

Hann segir víða vanta upp á vinnustaðaskírteinin. Séu þau ekki til staðar eru starfsmenn krafðir um önnur persónuskilríki, svo sem vegabréf eða ökuskírteini. Skírteinin eru mynduð og upplýsingar skráðar í gagnagrunn sem skatturinn hefur meðal annars aðgang að.

Eystra er unnið með AFLi starfsgreinafélagi og starfsmönnum kynnt réttindi þeirra um leið. Stefán segir atvinnurekendur almennt taka heimsóknunum vel.

„Einn og einn er ekki sammála og finnst þetta truflun. Við höfum leitað til AFLs. Þar er til mikil sérþekking sem við nýtum hér eystra.“

Eins er fylgst með hvort starfsmenn í atvinnurekstri séu sjálfboðaliðar. „Sjálfboðaliðavinna er bönnuð ef þú ert í atvinnurekstri. Enn hafa ekki komið upp slík dæmi í ferðaþjónustunni hér.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.