Kaltjónið er næstmest hjá bændum á Austurlandi

Kaltjónið sem varð á túnum s.l. vetur er næstmest hjá bændum á Austurlandi. Samkvæmt upplýsingum frá Bjargráðasjóði sóttu 48 bændur á Austurlandi um bætur til sjóðsins. Um var að ræða tjón á alls 1.175 hekturum.

Alls sóttu 211 bændur á Norður- og Austurlandi um bætur vegna kals í túnum sínum. Flestar umsóknar voru úr Suður Þingeyjasýslu eða 63 talsins vegna tjóns á 1.789 hekturum.

Í heildina nema umsóknir um kaltjón hjá Bjargráðasjóði um 800 milljónum kr. Við það bætast svo 160 milljónir kr vegna tjóns á girðingum en þar eru aðeins 2 umsóknir frá Austurlandi.

Eins og fram kom í frétt Austurfréttar um málið hefur Bjargráðasjóður ekki nema rúmar 200 milljónir kr. handbærar til að mæta þessum umsóknum. Þar kom einnig fram að fordæmi eru fyrir því að hið opinbera hlaupi undir bagga með sjóðnum þegar staða eins og þessi kemur upp, síðast árin 2012 og 2013.

Sigurður Eyþórsson framkvæmdastjóri Bjargráðasjóðs segir að hann hafi ekki við hendina yfirlit um það tjón sem varð 2012 og 2013. Þá bætti ríkið 130 milljónum kr. í sjóðinn vegna kaltjóna sem urðu á Norður- og Austurlandi.

„Bændur fengu þá bætur vegna þess,“ segir Sigurður. „Það er alveg ómögulegt að segja eitthvað um mögulegar fjárhæðir bóta fyrr en ljóst verður hversu mikið fjármagn verður til ráðstöfunar.“

Sigurður segir einnig að fjárhæð  bóta markast auk þess af því hvað menn náðu mikilli uppskeru í sumar og hvað þeir ætla að vera með mikinn bústofn á komandi vetri svo þær geta verið nokkuð misjafnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.