Kallað eftir aukinni sérfræðiþjónustu í skólunum

Aukin samvinna milli skóla og meiri þjónusta við nemendur, til dæmis sálfræðiþjónusta í hverjum skóla, er meðal þess sem frambjóðendur til bæjarstjórnar Fjarðabyggðar leggja áherslu á í menntamálum fyrir kosningarnar eftir rúma viku.

Menntamál og þjónusta við ungmenni hafa komið til umræðu á framboðsfundum þar í vikunni, enda eru fræðslumál þar meira en helmingur útgjalda, líkt og hjá flestum sveitarfélögum.

Á síðasta sameiginlega framboðsfundinum í Neskaupstað í gær bar íbúi, sem lagt hafði á sig ferð frá Fáskrúðsfirði, eftir þjónustu sálfræðinga við börn og ungmenni og hvort reynt yrði að færa hana nær börnunum, einkum af suðursvæðinu en starfsmennirnir sem veita hana eru gjarnan staðsettir í norðurhlutanum. Fyrirspyrjandinn nefndi sérstaklega Austurlandslíkanið frá Múlaþingi, þar sem ólík þjónusta við börn er samþætt, sem fyrirmynd.

Hjördís Helga Seljan frá Fjarðalistanum svaraði því til að Austurlandslíkanið væri til í Fjarðabyggð en kallaðist þar Sprettur því það sé lítillega breytt. Þar vinni til dæmis saman fjölskylduráðgjafar, sálfræðingar og hjúkrunarfræðingar í snemmtækri íhlutun sem koma á inn í alla skóla.

„Við erum samfélag“

Frambjóðendur Fjarðalistans hafa á fundunum talað fyrir að komið verði á fót geðræktarmiðstöð í Fjarðabyggð til að styðja við fólk í vanda. Hún nýtist til dæmis bæði til að styðja við fólk í kjölfar einangrunar og erfiðleika Covid-faraldursins en geti einnig verið fyrirbyggjandi.

Listinn hefur einnig varið ákvörðun um að gera máltíðir í skólum fríar. „Þær spara útgjöld og vinnu. Yfirleitt er það konan á heimilinu sem hefur umsjón með innkaupum og að útbúa nestið. Þetta er eitt þeirra atriða sem konur sinna á þriðju vaktinni og er ekki smáatriði,“ sagði Birta Sæmundsdóttir, sem skipar fjórða sætið í gær.

Hún vitnaði til nýrrar samantektar ASÍ sem sýndi leikskólagjöld í Fjarðabyggð sem ein hin lægstu á landinu og sagði listann stoltan af að standa með fjölskyldum. Hún svaraði gagnrýni Sjálfstæðisflokks á vaxandi útgjöld með því að Fjarðabyggð hefði ekki ákveðið að skerða þjónustu, svo sem opnunartíma leikskóla, þótt samið hefði verið um styttingu vinnuvikunnar í kjarasamningum eins og framundan sé á Hornafirði.

„Af hverju borgum við fyrir viðhald á skólum þegar börnin okkar eru búin í skólum? Af hverju greiðir ungt fólk fyrir heimaþjónustu eldri borgara? Það er því við erum samfélag,“ sagði hún um gagnrýni á skólamáltíðirnar.

Bæði hún og Arndís Bára Pétursdóttir, sem skipar þriðja sæti listans, hafa talað um að skólar Fjarðabyggðar séu vel tækjum búnir og mikilvægt að allir nemendur hafi aðgang að sambærilegum tækjum. Þá hefur Arndís Bára sagt í ræðum sínum að framboðið vilji tryggja skólaþjónustu í öllum byggðakjörnum enda sé skóli hjarta hvers staðar.

Ekki krúttmálefni

Anna Margrét Arnarsdóttir, oddviti Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, svaraði því í gærkvöldi að framboðið vildi fá sálfræðinga inn í hvern skóla til að tryggja að þeir séu til staðar í öllum hverfum. Hún hefur í ræðum sínum einkum talað um nám á háskólastigi þannig að fólk á landsbyggðinni geti stundað nám óháð búseti.

Framboðið hefur að auki lagt sérstaka áherslu á málefni hinsegin fólks, hvatt til þess að Fjarðabyggð temji sér kynhlutlaust orðfæri og kynhlutlausum salernum og búningsklefum verið fjölgað. Samhliða verði fræðslu um hinseginmálefni stóraukin, strax fyrir næsta skólaár sitji allt starfsfólk skóla fræðslu frá Samtökunum 78. „Þetta eru ekki krúttmálefni heldur eru þau upp á líf og dauða,“ sagði Anna Sigrún Jóhönnudóttur, sem skipar þriðja sætið, í gærkvöldi.

Meiri tími á gólfinu með nemendum og starfsfólki

Birgir Jónsson, sem skipar þriðja sætið hjá Framsóknarflokknum, hefur í framsöguræðum sínum sagt þörf á auknum sérhæfðum stuðningi inn í skóla. Ákall sé eftir að meiri tíma hennar sé „eytt á gólfinu með starfsfólki og nemendum.“ Skoða þurfi með sérfræðingum og starfsfólki skólanna hvernig það verði best gert. Í svari sínu í gærkvöldi sagði hann að sálfræðiþjónustan væri meðal þess sem fá þyrfti inn í skólana og nær börnunum, ekki síst á suðurfjörðunum.

Hann hefur einnig sagt að kominn sé tími til að farið verði gagnrýnið í gegnum úthlutunarlíkan Fjarðabyggðar á fjármagni til skólaþjónustu. Karen Ragnarsdóttir, skólastjóri Nesskóla sem er á lista Framsóknarflokksins, sagði í gærkvöldi að samþætta þyrfti námsskrá skóla til að efla áhuga og hvatningu nemenda.

Enginn skóli sé eyland

Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokks, sagði í gærkvöldi að berjast þyrfti fyrir auknu fjármagni til Heilbrigðisstofnunar Austurlands til að geta bætt í aðstoð sálfræðinga. Stofnunin hafi reynt að bæta í með að senda sérfræðinga milli staða.

Frambjóðendur flokksins hafa í framsöguræðum sínum einkum rætt um framboð háskólanáms og að í hverjum byggðakjarna verði námskjarni. Ragnar hefur talað um eflingu iðnnáms. Hann var spurður út í aðgerðir til þess á framboðsfundi á Eskifirði í fyrrakvöldi. Hann svaraði því til að leiðin væri klasasamstarf atvinnulífs og fleiri aðila sem sveitarfélagið hefði frumkvæði að. Í gærkvöldi sagði Heimir Snær Gylfason að kynna þyrfti iðnmenntun fyrr innan grunnskóla. Slík hugmyndum hefði hann komið á framfæri við þingmenn.

Þórdís Mjöll Benediktsdóttir hefur í sínum framboðsræðum kallað eftir auknu samstarfi skóla og skólastiga innan Fjarðabyggðar. „Hver skóli og hver byggðakjarni á ekki að vera eyland.“

Byrjað á skólalóðinni í sumar

Í gærkvöldi var einnig spurt út í framkvæmdir við skólavöll Nesskóla. Fulltrúar þeirra framboða sem sæti eiga í bæjarstjórninni svöruðu því að búið væri að hanna hana og gera ráð fyrir í fjárhagsáætlun. „Við byrjun á fyrsta áfanga hennar í sumar. Það má reikna með að hún verði að minnsta kosti tveggja ára verkefni,“ sagði Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.