Jólasíld SVN í ár sögð sú besta að venju

„Fólk segir í ár að síldin sé sú besta. Það höfum við heyrt áður og það sýnir að við erum alltaf á réttri leið. Ég tel að jólasíldin í ár sé algjört ljúfmeti og hún er í reynd lokapunkturinn á frábærlega vel heppnaðri síldarvertíð,“ segir Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri hjá Síldarvinnslunni (SVN) í spjalli á vefsíðu fyrirtækisins.

Einnig kemur fram að fyrir marga sem starfa hjá Síldarvinnslunni eða tengjast fyrirtækinu er jólasíld Síldarvinnslunnar ómissandi hluti jólahátíðarinnar. Í hugum flestra er Síldarvinnslujólasíldin besta síldin og mikið tilhlökkunarefni að fá að neyta hennar.

Síldin er framleidd eftir kúnstarinnar reglum í fiskiðjuverinu í Neskaupstað og yfirverkstjórinn, Jón Gunnar, stýrir framleiðslunni.

Jón Gunnar segir að ávallt sé ánægjulegt að fá þakkir fyrir jólasíldina og ekkert fari á milli mála að framleiðslan í ár sé vel heppnuð. Síldin er framleidd í takmörkuðu magni og er áhersla lögð á að hráefnið sé af bestu gæðum.
 
Fyrir utan þá jólsíld sem starfsfólk og velunnarar Síldarvinnslunnar hafa fengið hefur fyrirtækið sent Mæðrastyrksnefnd síld og mun hún örugglega vera vel metin á þeim vettvangi. Auk jólasíldar fékk Mæðrastyrksnefnd fisk að gjöf frá Síldarvinnslunni og eins var Samhjálp styrkt til matargjafa. Fyrir utan þetta hefur Síldarvinnslan lagt sitt af mörkum til matargjafa í Neskaupstað og á Seyðisfirði.

Mynd: Jón Gunnar Sigurjónsson.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.