Jólaserían þokast til baka yfir Fjarðarheiðina

Stöðugur straumur hefur legið í dag til Seyðisfjarðar eftir að rýmingu var aflétt á stórum hluta bæjarins klukkan 14:30.

Samkvæmt upplýsingum frá viðbragðsaðilum á staðnum komu fyrstu bílarnir til bæjarins um hálftíma síðar og síðan hefur umferðin verið nokkuð stöðug þótt hún hafi gengið í skorpum.

Þegar Austurfrétt fór yfir heiðina frá Seyðisfirði um klukkan hálf sex í kvöld var umferðin stöðug þótt aldrei væri bíll við bíl. Þegar bærinn var tæmdur á föstudag sögðu sjónarvottar að það hefði verið eins og að horfa á jólaseríu liðast niður Fjarðarheiðina þegar bæjarbúar komu í Egilsstaði.

Serían liggur nú í hina áttina, en vissulega ögn gisnari en hún var fyrir tveimur dögum.

Laust fyrir klukkan sex varð fimm mínútna hlé á umferðinni Héraðsmegin, sem mun vera hið minnsta í dag. Tveir bílar voru þá í áttina að lokunarpóstinum þar. Ekki munu þó allir þeir sem fóru til Seyðisfjarðar ætla að gista þar í nótt.

Rýmingu var í dag aflétt af öllum bænum norðar Fjarðarár og hluta hans austan hennar. Enn er stórt svæði í utanverðum bænum lokað fyrir umferð. Steypuklumpum var í dag komið fyrir á götum til að varna því að fólk fari inn á þau svæði og björgunarsveitarfólk stendur þar vaktina.

Óviðkomandi umferð til Seyðisfjarðar er enn óheimil og gæta viðbragðsaðilar á öllum sem fara um beggja vegna Fjarðarheiðarinnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.