Ítrekað hafnað aðkomu að þjónustuhúsi við Hengifoss

Sveitarstjórn Fljótsdalshrepps er ósátt við að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur ítrekað hafnað aðkomu að byggingu á þjónustuhúsi við Hengifoss. Finna þurfi lausn á málinu áður en ferðamannastraumur vex að nýju.

Helgi Gíslason sveitarstjóri Fljótsdalshrepps segir að ekki hafi staðið á þeim að leggja þessu máli lið hvað varðar skipulagsmál og fleira. Einnig hafi verið lagt í verulega vinnu við hönnun á þjónustuhúsinu en hreppurinn hafi fengið styrk til þess að hluta til frá sjóðnum.

„Við erum því ekki sátt við afstöðu sjóðsins hingað til,“ segir Helgi.

Fjallað var um málið á nýlegum sveitarstjórnarfundi en þar kom fram að búið sé að senda inn nýja umsókn til Framkvæmdasjóðsins. Á fundinum kom einnig fram að sveitarfélagið er reiðubúið að greiða hærra hlutfall af byggingarkostnaði en vaninn er við uppbyggingu á ferðamannastöðum.

Mikil ásókn ferðamanna hefur verið að Hengifossi á undanförnum árum enda er um að ræða "fjölsóttustu náttúruperlu fjórðungsins", eins og segir í fundargerð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.