Íslandsbanki skerðir opnunartíma á Reyðarfirði

„Undanfarin misseri hefur dregið úr komum viðskiptavina í útibúið og á sama tíma aukist sú þjónusta útibúsins sem veitt er í gegnum tölvupóst og síma,“ sagði Gunnar F. Vignisson, útibússtjóri Íslandsbanka á Reyðarfirði, en viðskiptavinum bankans var tilkynnt um fyrirhugaðan skertan opnunartíma útibúsins á Reyðarfirði.



Viðskiptavinum Íslandsbanka á Reyðarfirði barst á dögunum tölvupóstur þess efnis að útibúið yrði aðeins opið milli klukkan 12:30 – 16:00 frá 20. febrúar næstkomandi, í stað 9:00 til 16:00. Útibúið á Egilsstöðum yrði hins vegar áfram opið milli klukkan 9:00 og 16:00.

„Við erum að aðlaga okkur að þessari breytingu með því að draga saman þjónustu sem minnkandi eftirspurn er eftir og um leið að skapa starfsmönnum betri skilyrði til að sinna vaxandi eftirspurn eftir þjónustu fyrir viðskiptavini sem kjósa að fá sig afgreidda án þess að þurfa að koma í útibúið eða hafa ekki tök á því. Í því sambandi er rétt að benda á að stór hluti viðskiptavina er búsettur í byggðalögum fjarri útibúinu og jafnvel í öðrum landshlutum,“ segir Gunnar.


Ekki breyting á opnunartíma í öðrum útibúum

Gunnar segir að ekki sé verið að skerða opnunartíma í fleiri útibúum Íslandsbanka. „Í öðrum útibúum er mögulegt að ná fram sambærilegri vinnuhagræðingu án þess að breyta opnunartíma. Ástæðan er sú að á Austurlandi er útibú með fáum starfsmönnum sem deila þarf niður á tvær starfstöðvar sem eru á Reyðarfirði og Egilsstöðum. Annarsstaðar eru starfsmenn fleiri og saman á einum stað og þar því hægt að hafa þann hátt á að hluti starfsmanna sinni viðskiptavinum sem koma í útibúið og aðrir síma og tölvupósti.“


Fjarþjónusta fyrir hádegi og staðþjónusta eftir hádegi

Aðspurður að því hvernig hann telji breytinguna koma við viðskiptavini segir Gunnar; „Hún er sú að þeir viðskiptavinir sem þurfa eða vilja koma í útibúið til að sinna erindum sínum geta ekki gert það fyrr en klukkan 12:30 á daginn, en samkvæmt mælingum er sá hópur ekki fjölmennur. Á móti kemur að viðskiptavinir sem óska eftir þjónustu í síma og með tölvupósti munu fá hraðari afgreiðslu. Með öðrum orðum þeir sem óska eftir fjarþjónustu fá forgang fyrir hádegi en þeir sem koma í útibúið fá forgang eftir hádegi. Auk þess gefst starfsmönnum betri tími og næði til að sinna stærri og flóknari málum viðskiptavina á þeim tíma sem útibúið er lokað fyrir heimsóknum.“

Gunnar segir starfsfólk ekki missa vinnuna vegna þessa. „Starfsmenn vinna óbreyttan vinnudag og sömu störf og áður. Almennt séð er breytingin til þess fallin að bæta vinnuumhverfi og vinnuskipulag starfsmanna.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.