Ingibjörg gefur kost á sér hjá VG

Ingibjörg Þórðardóttir, varaþingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og framhaldsskólakennari í Neskaupstað, verður meðal þeirra sem gefa kost á sér á lista flokksins fyrir þingkosningarnar á næsta ári í Norðausturkjördæmi.

Ingibjörg skipaði þriðja sætið á lista VG fyrir kosningarnar 2017. Hún er nú ritari hreyfingarinnar auk þess að vera formaður kjördæmisráðs, í stjórn flokksins á landsvísu og stjórn svæðisfélags hans á Austurlandi.

Í tilkynningu Ingibjargar segir hún að alltof fáir Austfirðingar hafi verið á þingi undanfarin misseri og löngu tímabært sé að bæta úr því.

„Í komandi kosningabaráttu er mikilvægt að við skerpum á okkar helstu málum. VG breytti stjórnmálaumræðunni á Íslandi á sínum tíma og við gerum það enn. Ég vil því halda áfram að vera í forystu fyrir okkar góðu hreyfingu og óska því eftir stuðningi minna félaga,“ segir hún.

Oddvitasæti VG í Norðausturkjördæmi er laust eftir Steingrímur J. Sigfússon tilkynnti að hann myndi hætta þingmennsku. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður, hefur þegar lýst áhuga á því sem og Óli Halldórsson, sveitarstjórnarmaður í Norðurþingi. Þá hefur Kári Gautason framkvæmdastjóri þingflokksins, lýst áhuga á sæti ofarlega á listanum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar