Illviðri setur strik í hátíðarhöld öskudags

Nemendur í Nesskóla í Neskaupstað hafa ekki enn farið af stað í bæinn til að halda upp á öskudag vegna vonds veðurs. Færð á og í kringum Egilsstaði er slæm.


Skólastjórnendur Nesskóla sendu frá sér tilkynningu í morgun um að ekki væri forsvaranlegt að senda skrautklædda nemendur út í veðrið. Staðan verði metin aftur undir hádegi, en farið verði á morgun ef ekki verður hægt að fara í dag. Í Neskaupstað sér vart milli húsa í hríðum.

Ekki er það skárra á Egilsstöðum þar sem er mjög blint, mikil úrkoma og strekkingsvindur. Þar er skóli felldur niður eftir hádegi samkvæmt venju og því undir forráðafólki komið hvort nemendur fari í fyrirtæki og stofnanir. Heldur er gert ráð fyrir að veðrið lagist þar um og eftir hádegi. Skólaakstur við Fellaskóla var felldur niður í morgun.

Austurfrétt er á þessari stundu ekki kunnugt um fleiri staði þar sem veðrið setur verulegt strik í hátíðarhöld öskudags.

Veðrið hefur spillt færð, einkum á Fljótsdalshéraði. Ófært er um Fell, Fjarðarheiði og Fagradal.Þungfært er um Velli, Skriðdal og Út-Hérað. Snjóþekja á Jökuldal, Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði og skafrenningur en þæfingur á Jökuldalsheiði. Hálka er frá Hallormsstað inn í Fljótsdal. Hálkublettir eru á leiðinni um firði.

Samkvæmt þjóðtrú á öskudagur sér átján bræður og var því trúað að veðurfarið næstu 18 daga á eftir væri svipað. Væntanlega vona Austfirðingar að svo verði ekki að þessu sinni.

Frá öskudegi 2019.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.