Illfært á Egilsstöðum

Ökumenn lentu í vanda innanbæjar á Egilsstöðum í bylnum í dag. Ófært er um fjallvegi og um ströndina milli Breiðdalsvíkur og Fáskrúðsfjarðar. Lögreglan hefur hvatt íbúa til að halda sig heima þar til veðrið er gengið niður.

„Það hefur snjóað mikið á Egilsstöðum og um tíma var mikið fok þannig ökumenn sáu lítið út úr farartækjum sínum og enduðu í sköflum. Þar var allt að verða stopp um tíma,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn.

Ekki hafa borist tilkynningar úr öðrum byggðarlögum þótt mikið hafi snjóað og sums staðar myndast þæfingsfærð. Eitt útkall barst vegna ökumanna í vanda á Vatnsskarði eystra í dag.

Veginum yfir Fagradal var endanlega lokað á fimmta tímanum í dag og nokkru síðar leiðinni milli Fáskrúðsfjarðar og Breiðdalsvíkur. Fjarðarheiði, Vopnafjarðarheiði og Möðrudalsöræfi hafa verið lokuð um helgina.

Athugað verður með ruðning á þessum leiðum í fyrramálið. Á Möðrudalsöræfum festist fjöldi bíla þegar gekk í bylinn á föstudagskvöld. Unnið var fram eftir nóttu og áfram í gærmorgunn að því að koma þeim til byggða þannig þeir verði ekki til trafala þegar byrjað verður að moka.

Byrjað er að draga úr úrkomunni eystra og er von á að það haldi áfram auk þess sem vind á heldur að lægja í nótt. Lögreglan hefur hvatt Austfirðinga til að halda sig heima þar til veðrið er gengið niður.

Veðurstofan varar fólk á að vera á ferð til fjalla næstu tvo daga. Mælingar úr snjógryfjum á Austfjörðum gefa til kynna mjög veik lög í nýjum flekum. Von er á að kuldinn viðhaldi veikleikanum. Ekki er talin hætta í byggð en vel er fylgst með snjósöfnun.

Frá Egilsstöðum í dag. Mynd: Unnar Erlingsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.