Skip to main content

Íbúum á Stöðvarfirði ráðlagt að sjóða vatn

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. sep 2025 16:05Uppfært 10. sep 2025 16:06

Íbúum á Stöðvarfirði hefur verið ráðlagt að sjóða neysluvatn sitt. Sýnataka í vikunni bendir til þess að gerlamengun hafi borist í vatnið eftir miklar rigningar síðustu daga.


Þekkt er að yfirborðsvatn getur komist í neysluvatnið á Stöðvarfirði og mengað það í stórrigningum. Þess vegna var ákveðið að taka sýni nú og benda fyrstu niðurstöður til þess að örverumengun hafi borist í vatnið.

Fjarðabyggð sendi því frá sér tilmæli til íbúa um að sjóða neysluvatn. Óhætt er að nota vatnið til annarra þarfa. Von er á nánari niðurstöðum á vatnssýnunum á morgun.

Vatnsmál á Stöðvarfirði hafa verið til umræðu eftir að mengun greindist í því í lok júlí. Í kjölfarið hefur vatnskerfið verið yfirfarið til að finna uppruna mengunarinnar og kortleggja kerfið, sem er komið nokkuð til ára sinna.

Samkvæmt upplýsingum frá Fjarðabyggð í dag liggur fyrir ákvörðun um að panta geislunartæki sem eiga að drepa gerla í vatninu. Vonast er til að tækin verði komin upp um miðjan október og þá verði atvik sem þetta úr sögunni.