Íbúðarhús á Völlum illa farið eftir bruna

Íbúðarhúsið á Stormi á Völlum er illa farið eftir eldur kom þar upp rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi. Slökkvistarf gekk vel þótt það hafi ekki litið vel út á tímabili.



„Slökkvistarfið gekk vonum framan miðað við hvernig staðan var þegar slökkviliðið kom á staðinn. Það var kominn verulegur eldur í stafninn og þakið,“ segir Baldur Pálsson, slökkvistjóri hjá Brunavörnum á Austurlandi.

Húsið er timburhús, byggt árið 2010. Tilkynning um eldinn barst klukkan 23:59 í gærkvöldi. Slökkvistarfi lauk á fjórða tímanum í nótt. Nokkuð var þá síðan tókst að ráða niðurlögum eldsins en gengið var úr skugga um að hvergi leyndist glóð.

Rjúfa þurfti þakið til að komast að eldinum og rífa niður klæðningar úr loftinu að innanverðu. Vindurinn stóð á þá hlið hússins sem eldurinn logaði í og gerði það slökkviliðinu erfitt fyrir.

„Við slíkar kringumstæður getur eldurinn breiðst hratt út og þetta leit ekki vel út á tímabili.“

Verulegar skemmdir urðu í þessum innri enda hússins sem hýsti eldhúsið. Ytri hluti hússins er heill fyrir utan reyk- og vatnsskemmdir. Tjónið er því verulegt.

Lögregla rannsakar eldsupptök en svo virðist sem eldurinn hafi komið upp utan frá.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.