Íbúar verða sjálfir að ráða sameiningum

Frambjóðendur í Norðausturkjördæmi virðast almennt á þeirri skoðun að ekki eigi að sameina sveitarfélög með lögum þótt æskilegt sé að fækka þeim og stækka.

Frambjóðendur voru spurðir út í afstöðu til sameiningar sveitarfélaga og hvata til þeirra á framboðsfundi Austurfréttar/Austurgluggans í Valaskjálf í gærkvöldi. Meirihluti þeirra lýsti sig á móti sameiningum með lögum.

„Það er ekki hlutverk ríkisvaldsins að pína menn sundur eða saman,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Miðflokknum.

„Ég er ekki fylgjandi lögþvingaðri sameiningu. Hún skapar ekki rétta andrúmsloftið. Það vill stundum súrna í þótt menn hafi samþykkt sameiningarnar sjálfir,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon frá Vinstri grænum.

„Þótt mér finnist að Austurland eigi að vera eitt sveitarfélag þá er ekki þar með sagt að fólk eigi ekki að ráða því sjálft,“ sagði Benedikt Jóhannesson frá Viðreisn.

„Píratar vilja hafa völdin í nærsamfélaginu og munu aldrei samþykkja sameiningu ofan frá,“ sagði Einar Brynjólfsson, Pírötum.

„Að sjálfsögðu vil ég að heimamenn ráði en það verður að vera þjónusta á minni stöðum,“ sagði Halldór Gunnarsson, Flokki fólksins.

Þorsteinn Bergsson úr Alþýðufylkingunni sagði að fyrst þyrfti að meta árangurinn af sameiningum áður en farið væri fram á fleiri. „Það verður að meta hvort yfirfærsla verkefna sé alltaf rétta leiðin þótt sveitarstjórnarmenn heimti alltaf meira. Það hefur ekki alltaf komið vel út.“

Samvinna undanfarinn

Arnbjörg Sveinsdóttir, Sjálfstæðisflokki og Þórunn Egilsdóttir, Framsóknarflokki, sem báðar hafa talsverða reynslu af vettvangi austfirskra sveitarstjórnarmála vöktu máls á austfirskri samvinnu sem gengi víða vel.

„Það verður að vera góður aðdragandi að sameiningu, samtal og samvinna eins og gert er með félagsþjónustu og skólamálum. Sameining verður að gerast í hæfilega stórum skrefum, ekki of hratt því það hefur sums staðar farið illa. Störfum á stöðunum má ekki fækka því þá upplifir fólk að það sé að missa eitthvað og það munar um 1-2 störf á litlum stöðum,“ sagði Þórunn.

Arnbjörg vakti máls á mikilvægi samganga fyrir sameiningar. „Það er ljóst að okkur tekst ekki að sameina þessi sveitarfélög hér og það er heldur ekki skynsamlegt nema við höfum almennilegar samgöngur.“

Endurskilgreina þarf tekjustofna

Arngrímur Viðar Ásgeirsson frá Bjartri framtíð spáði því að 1-3 sveitarfélög yrðu á Austurlandi innan næstu 10 ára. Til þess yrðu að vera fjárhagslegir hvatar, til dæmis 10 ára ríkisframlag meðan nýtt sveitarfélag byggist upp.

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir frá Samfylkingunni sagðist sjá fyrir sér Austurland í einu sveitarfélagi í framtíðinni en það yrði að gerast í skrefum. Hún minntist sérstaklega á vinnu við svæðisskipulag sem er í gangi eystra sem grunn að sameiningu.

Albertína var meðal þeirra frambjóðenda sem ræddi að breyta yrði tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Steingrímur J. sagði að skilgreina þyrfti betur regluverk Jöfnunarsjóðs þannig hann styðji betur við fjölkjarna sveitarfélög. Mikið af þeirri vinnu sé sveitarfélaganna.

„Það er grunnur að sterkum sveitarfélögum að þau hafi tekjustofna,“ sagði Einar og Benedikt bætti við að Jöfnunarsjóðurinn mætti ekki refsa sveitarfélögum fyrir að sameinast.

Sigmundur Davíð sagði að horfa þyrfti á ferðaþjónustuna, mikil skekkja væri milli í hvaða sveitarfélögum þyrfti að byggja upp til að taka á móti ferðamönnum og hvar tekjurnar yrðu eftir.

Hlusta má á fundinn í heild sinni hér. Hvert framboð hafði þrjár mínútur í byrjun til framsögu áður en opnað var fyrir spurningar úr sal.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.