Íbúar í Neskaupstað vilja skýringar á áhrifum snjóflóðavarnagarða

Íbúar í Neskaupstað krefja ríkið og sveitarfélagið Fjarðabyggð svara um áhrif af byggingu nýrra snjóflóðavarnargarða á nærumhverfið. Bæjarstjórinn segir málin skýrast við mat á umhverfisáhrifum og hönnun garðanna.


Tveir garðar eru eftir, við Urðarbotna og Nes- og Bakkagil til að Neskaupstaður teljist fullvarinn miðað við hættumat sem gert var fyrir bæinn árið 2002. Verið er að meta umhverfisáhrif framkvæmdarinnar sem gæti farið af stað árin 2017 eða 2018.

Tíu íbúar í nágrenni væntanlegra garða sendu sveitarfélaginu undirskriftalista um miðjan apríl þar sem þeir óska eftir upplýsingum um væntanleg áhrif garðanna og byggingu þeirra. Meðal annars er óskað skýringa ráðuneytis á túlkun laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum um hvort í þeim sé „skýlaus krafa“ um 100% verndarsvæði mannvirkja.

 

Farið er fram á svör á ábyrgð framkvæmdarinnar gagnvart íbúum neðan varnargarðs og hve lengi hún gildi. Vísað er til áhrifa breyttrar grunnvatnsstöðu og jarðsigs sem komið hafi fram á Bökkum og Oddsskarði eftir gerð varna þar. Íbúarnir hafa meðal annars spurt hvort þörf sé á varnargörðunum og hvort aðrar leiðir séu færar sem hafi í för með sér minni röskun á umhverfinu.

 

Í bréfi þeirra er einnig spurt hví ekki sé notast við sambærilegar varnir gegn snjóflóðum á Íslandi og erlendis og hví bygging þeirra sé mun dýrari hér en í Sviss.

Ekki hægt að svara öllu strax

Í svari bæjarráðs Fjarðabyggðar segir að sveitarfélagið geti ekki svarað fyrir hönd ráðuneytisins en vinnan sé unnin á grundvelli hættumatsins, að framkvæmdirnar séu vel kynntar og íbúum gefist tækifæri til að gera athugasemdir. Íbúarnir ítrekuðu fyrirspurnir sínar fyrr í mánuðinum þar sem þeir töldu svörin ekki fullnægjandi. Þeir nefna til dæmis að hvergi sé minnst á aðgerðaáætlun gagnvart tjóni sem húseigendur geti orðið fyrir á framkvæmdatímanum eða eftir að honum lýkur.

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir erfitt fyrir sveitarfélagið að svara einstökum spurningum um tæknileg atriði, svo sem samanburð á milli landa. Sum svörin skýrist við umhverfismatið eða hönnunarferlið sem tekur við af því. Vilji bæjarstjórnar sé að íbúar og aðrir geti komið sínum athugasemdum á framfæri. Til þess sé ákveðið ferli sem meðal annars feli í sér íbúafundi þar sem fulltrúar frá ofanflóðasjóði sitji.

Hvenær framkvæmdir við garðana hefjast veltur á fjármagni frá ríkinu en vonir standi til að það verði á næstu tveimur árum. „Við eigum eftir að ræða við ríkið um fjármagn en það er algjör vilji bæjarstjórnar til að byggja varnir fyrir Neskaupstað miðað við það áhættumat sem liggur fyrir með öryggi íbúa og eigna þeirra í fyrirrúmi.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.