Hvetja ungt fólk til að henda sér í hina djúpu laug stjórnmálanna

„Þessi hugmynd að hafa einhverskonar pepp fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar kviknaði innan samtakanna fyrir nokkrum mánuðum. Við viljum og ætlumst til að ungt fólk fái að hafa áhrif á samfélagið á Austurlandi og því langar okkur til þess að hvetja ungt fólk til þess að bjóða sig fram í komandi kosningum sem verða í maí á næsta ári,“ segir Dagur Skírnir Óðinsson, almannatengill Ungs Austurlands.

 

Föstudaginn 17. nóvember býður Ungt Austurland í léttann kvöldverð og fyrirlestur í von um að ná að hvetja unga Austfirðinga til að taka þátt í sveitastjórnarkosningum nú í vor. Þar verða með erindi Stefán Bogi Sveinsson, bæjarfulltrúi Framsóknar á Fljótsdalshéraði, Hjördís Helga Seljan, varabæjarfulltrúi L – lista í Fjarðabyggð, Albertína Elíasdóttir, yngsti þingmaður Norðausturkjördæmis og fyrrverandi sveitastjórnarkona og Áslaug Arna, starfandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins og yngti þingmaður Íslendinga.

Vísindaferð um Síldarvinnsluna

„Fyrir utan fáranlega góða framsögumenn og erindi þá ætlum við líka að bjóða gestum uppá einhverja geggjaða súpu og svo ætlar Siggi Steinn hjá Síldarvinnslunni að taka áhugasama gesti í smá vísindaferð þangað að loknu öllu peppinu. Hákon Hildebrand hefur svo verið okkur innan handar við þetta allt saman og er með mjög góð tilboð á gistingu fyrir þá sem vilja taka kvöldið og nóttina á Neskaupstað, sem ég mæli auðvitað með.“

Sveitarfélögin vilja hlusta á ungt fólk

Aðspurður hvernig félagið fari að því að fjármagna og halda samkomur líkt og þessa á Neskaupsstað um helgina, segir Dagur það ekki hægt án mikils stuðning sveitarfélagana. „Þau hafa styrkt okkur myndarlega og þau vilja greinilega hlusta á það sem ungt fólk hefur fram að færa. Svo er það náttúrlega með þetta eins og önnur félagsstörf að þetta væri ekkert hægt ef það væri ekki fyrir einstaklinga sem eru tilbúnir að fórna hellings tíma og orku í að láta eitthvað gerast.“

„Þetta pepp núna á föstudaginn verður kannski til þess að einhver ákveður að hoppa útí þá djúpu laug sem sveitarstjórnarmál eru. Við vonum allaveganna að það verði enginn alveg fráhuga því að láta ljós sitt skína eftir kvöldið. Svo er náttúrlega þessi tímasetning alveg frábær því að fólk fær tækifæri á að keyra í gegnum nýju göngin“.

Miðstjórn Ungs Austurlands fundar

Í miðstjórn Ungs austurland eiga um 50 Austfirðingar sæti á aldrinum 18-40 ára. Miðstjórnin er hugsuð sem grasrót félagsins og munu þau funda nú á laugardaginn. „Umfjöllunarefni fundarins verða samgöngumál með áherslu á innanlandsflug – heilbrigðisþjónusta í fjórðungnum og svo komandi sveitarstjórnarkosningar. Þaðan eiga svo að koma ályktanir eftir fundinn.“

Opna heimasíðu á næstu dögum

Hvað er svo framundan hjá félaginu? „Það er eitt og annað í pípunum, við stefnum á að vera með smá djamm fyrir jól og að halda starfamessu í nálægri framtíð svo erum við að opna alveg ógeðslega netta heimasíðu á næstu dögum. Þangað til er best að fylgjast með okkur á samfélagsmiðlum, við erum á gramminu, twitter og svo með stóra grúppu á facebook.“

Þeir sem vilja kynna sér starfsemi Ungs Austurlands geta skoðaði facebook síðu þeirra hér

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar