Hvert starf fyrir konu skiptir máli fyrir samfélagið

Austfirðingar eru þátttakendur í fimm landa Evrópuverkefni sem miðar að því að efla frumkvöðlakonur á landsbyggðinni. Verkefnisstjóri minnir á að á sumum svæðum skipti hvert starf máli.


„Þetta verkefni er sprottið út frá hugmynd sem kviknaði á Egilsstöðum fyrir tveimur árum,“ segir Ásdís Guðmundsdóttir, verkefnastjóri hjá Vinnumálastofnum sem leiðir verkefnið.

Verkefnið kallast FREE en að auki eru samstarfsaðilar í Englandi, Króatíu, Búlgaríu og Litháen og miðar það að því að aðstoða frumkvöðlakonur á landsbyggðinni, sem hafa hugmyndir eða hafa stofnað fyrirtæki, til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd.

Ásdís segir að sambærilegt verkefni hafi verið haldið í Reykjavík en ákall hafi verið eftir slíku verkefni á landsbyggðinni í kjölfarið. Ákveðið var að beina kastljósinu að þremur landssvæðum: Vestfjörður, Norðurlandi vestra og Austurlandi.

Eitt starf skiptir máli

„Þetta eru svæði þar sem atvinnutækifæri eru ekki jafn fjölbreytt og í borginni og oft eru karllæg störf í iðnaði ráðandi,“ útskýrir Ásdís sem kynnti verkefnið á fundi með Tengslaneti austfirskra kvenna (TAK) á Café Nielsen á Egilsstöðum á miðvikudagskvöld.

„Við vissum að við gætum ekki verið alls staðar þannig við fórum að skoða aðstæður á nokkrum svæðum. Íbúaþróunin er þannig að konum fækkar og þegar einn fer fara fleiri með.

Litlar hugmyndir eru líka mikils virði. Eitt starf fyrir eina konu er mikilvægt, ekki bara fyrir hana sjálfa heldur í stóra samhenginu. Það má ekki vanmeta það litla sem verður að meiru.“

Hópur eystra sem hittist

Fræðslan sem veitt er í verkefninu er þríþætt. Í fyrsta lagi er það viðskiptatengd hæfni sem kennd er í netkennslu, í öðrum lagi persónuleg hæfni og í þriðja lagi tengsla net kvenna í atvinnurekstri á hverjum stað þar sem stofnað er svæðisbundið tengslanet.

Slíkt net hefur komist á eystra undir forustu Önnu Katrínar Svavarsdóttur og hefur hópurinn hist nokkrum sinnum í vetur. Þá fóru nokkrar konur úr verkefninu út á ráðstefnu í Sheffield í Englandi í september.

Ásdís segir fjölmargar rannsóknir sýna að stuðningur sem þessi verði til þess að hugmyndir verði að veruleika. Þá segir hún æskilegt að efla konur í atvinnurekstri.

„Tölfræðin er þannig að 30% fyrirtækja eru rekin af konum en 70% af körlum. Í samstarfslöndunum er víða mikið atvinnuleysi og þar snýst verkefnið um að búa til störf.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.