Hrun í sértekjum skapar erfiðleika fyrir Vatnajökulsþjóðgarð

Hrun í sértekjum hjá Vatnajökulsþjóðgarði mun skapa mikla fjárhagserfiðleika í rekstri hans á næsta ári ef ekkert verður að gert. Um 200 milljónir kr. vantar upp á til að rekstur þjóðgarðsins verði með eðlilegu móti.

Agnes Brá Birgisdóttir þjóðgarðsvörður austurhluta Vatnsjökulsþjóðgarðs segir að fyrirsjáanlegt hrun í fjölda ferðamanna á næsta ári skapi þennan vanda.

„Það er líklegt að stjórnvöld geri eitthvað líkt og þau gerðu í ár,“ segir Agnes Brá. „Nefna má að í ár tryggðu stjórnvöld þjóðgarðinum tekjur umfram fjárlög vegna sértekjuhruns upp á um 200 milljónir króna.“

Agnes Brá segir að þjóðgarðurinn sé háður sértekjum sem m.a. skapast af sölu minjagripa, gistingu á tjaldsvæðum, og í  skálum og t.d. bílastæðagjöldum (Skaftafell) innan þjóðgarðsins. 

„Það er ljóst að vegna COVID og færri ferðamanna þá er hrun í sértekjum þjóðgarðsins og þess vegna er reksturinn  mjög óljós fyrir næsta ár,“ segir Agnes Brá.

„Þetta gat sem myndast  mun að mestu bitna á sumarstörfum í þjóðgarðinum og landvörslu, eftirliti, fræðslu, öryggi, upplýsingum og viðhaldi. Allur þjóðgarðurinn þarf að skera niður, ekki bara austursvæði, ef ekki verður komið til móts við sértekjutapið.“

Ráðuneytið skoðar tillögur

Agnes Brá segir að rekstraráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir 2021 er enn nokkuð óljós. En undanfarið hafi starfsfólk þjóðgarðsins unnið nokkrar rekstraráætlanir fyrir öll svæðin þar sem mismunandi sviðsmyndum er stillt upp.  
 
„Umhverfis- og auðlindaráðuneytið er að skoða þessar tillögur og enn er ekki ljóst hvernig þessu verður mætt þaðan,“ segir hún.
 
„Svæðisráðin fjögur sem þjóðgarðurinn heyrir undir funda hugsanlega í lok vikunnar aftur um rekstraráætlun 2021 og svo stjórn þjóðgarðs í framhaldinu eftir helgi og þá ættu málin að fara að skýrast, hversu mikið þarf að draga saman árið 2021 til þess að bregðast við sértekjutapi.“ segir Agnes Brá.

Svæðisráð Austursvæðis þjóðgarðsins fundaði nýlega um málið og lýsir yfir þungum áhyggjum vegna fyrirhugaðs niðurskurðar á svæðinu. Þar kom m.a. fram að svæðið horfir upp á 40% niðurskurður ef ekkert breytist

„Mun niðurskurður þessari stærðargráðu hafa neikvæð áhrif á vinnuumhverfi starfmanna þjóðgarðsins á svæðinu vegna aukins vinnuálags þegar að fyrirsjáanlegt var að frekar þyrfti að fjölga starfsmönnum en fækka. Þessi lækkun á rekstrarfé til svæðisins mun einnig hafa neikvæð áhrif á öryggi ferðamanna og viðbragðstíma ef að um slys er að ræða,“ segir m.a. í bókun frá fundinum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.