„Hrepparígur byggist á fordómum og minnimáttarkennd“

„Að sjálfsögðu verður unga fólkið að mæta með okkur í kvöld, en við erum að reyna að leggja okkar að mörkum til þess að bæta samfélagið, koma okkar hugmyndum á framfæri og vera öflugur málsvari fyrir ungt fólk á Austurlandi,“ segir Margrét Árnadóttir, sem situr í bráðabirgðastjórn samtakanna Ungt fólk á Austurlandi, en formlegur stofnfundur verður haldinn á Egilsstöðum í kvöld.


Fjölmennur undirbúningsfundur samtakanna var haldinn á Borgarfirði í haust, en tilgangur þeirra er að gera Austurland að vænlegum búsetukosti fyrir ungt fólk, styrkja tengslanet ungra Austfirðinga, auðga umræðu um byggðaþróun og vera öflugur málsvari ungs fólks á Austurlandi.

„Við finnum fyrir miklum áhuga, bæði hjá jafnöldrum okkar og þeir sem eldri eru og við fáum allskonar kveðjur frá þeim sem eiga ekki heimangengt að vera með okkur. Sjálf höfum við óbilandi trú á þessu verkefni, en kosin var fimm manna bráðabirgðastjórn á undirbúningsfundinum á Borgarfirði en í kvöld geta áhugasamir boðið sig fram í stjórn og þá fara hlutirnir að gerast,“ segir Margrét.

Hrepparígurinn er útdauður

Margrét segir gamla hrepparíginn vera á undanhaldi. „Hann er útdauður, eða í það minnsta að deyja út, blessunarlega. Þetta er enn fast í eldra fólkinu sem var alið upp á annan hátt en við og var kannski ekki í þessum miklu tengslum við fólk út um allt. Hrepparýgur byggist á fordómum og minnimáttarkennd og hamlar framgangi. Hjá okkur unga fólkinu eru engin hreppamörk, við erum bara Austurland og vinnum út frá því en til þess að gera stóra hluti verðum við öll að vinna saman, ekki sitt í hverju horni.“

Fundurinn verður í Valaskjálf og hefst klukkan átta í kvöld

Dagskrá fundarins verður sem hér segir:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
2. Skýrsla bráðabirgðastjórnar: Aðdragandi að stofnun félagsins
3. Samþykktir lagðar fram
4. Ákvörðun félagsgjalds
5. Kosning stjórnar(5) og varastjórnar(5)
6. Kosning miðstjórnar (40-50)
7. Önnur mál

Allir Austfirðingar á aldrinum 18-40 ára velkomnir og hvattir til þess að mæta.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.