Hrafndís Bára stefnir á fyrsta sætið hjá Pírötum

Hrafndís Bára Einarsdóttir af Jökuldal hefur lýst yfir áhuga til að leiða lista Pírata í Norðausturkjördæmi í komandi þingkosningum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hrafndísi. Hún er fædd árið 1983, uppalin á Jökuldal til 16 ára aldurs þegar fjölskylda hennar fluttist í Egilsstaði. Hún hefur síðan meðal annars búið í Lúxemborg, Stykkishólmi, Reykjavík, Svalbarðsstrandarhreppi og nú Akureyri.

Hrafndís Bára lauk diplómagráðu í leiklist og framkomufræðum frá Kvikmyndaskóla Íslands árið 2010 og diplómu í viðburðastjórnun frá ferðamáladeild Háskólans á Hólum 2016.

Hún hefur komið víða við á starfsferlinum, til dæmis unnið með börnum og unglingum, starfað við leiklist, menningarstarfsemi og matarhönnun. Þá var hún kosningastjóri Pírata í bæjarstjórnarkosningunum 2018 og skipaði þriðja sæti listans í kjördæminu í þingkosningunum 2017.

Í yfirlýsingu kveðst Hrafndís Bára tilbúin að starfa af heilindum og krafti fyrir jöfnum tækifærum, breyttu regluverki og gagnsæi. Hún vilji taka þátt í að breyta aðferðafræðinni og stíga skref fram á við í rekstri og stjórnun ríkis og samfélags. Þörf sé á að gera gagngerar breytingar á hvernig fólk lifi og heimurinn sé tilbúinn fyrir þær breytingar.

Hún segist vilja starfa fyrir Pírata því hún vilji tilheyra flokki sem sé laus við spillingu og tilheyra fólki sem starfi af heilindum og elju. Hún hafi hrifist af því góða fólki sem starfað hafi innan hreyfingarinnar fengið góða tilfinningu fyrir því.

Hrafndís Bára lýsir sér sem orkuríkri, jákvæðri en gagnrýninni, sanngjarnri en ákveðinn auk þess sem hún geti verið svo fyndin að hún varpi skugga á Brynjar Níelsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins.

Þá nefnir hún þörfina á að afnema skerðingu bóta eftir reglunni króna á móti krónu. Það sé ekki bara hagsmunamál heldur leiðrétting á „því ráni sem hefur viðgengist gagnvart okkar fólki.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.