Heyskapur gengið bölvanlega hjá mörgum bændum á Austurlandi

„Þetta hefur bara gengið hreint bölvanlega í sumar og ég er ekki einn í þeirri stöðu hér í grendinni,“ segir Þórarinn Páll Andrésson bóndi á Fljótsbakka. Tún hans urðu fyrir miklum kalskemmdum í vor og síðan komu þurrkar í sumar sem gerðu ástandið enn verra.

„Ég áætla að heyuppskeran hjá mér í sumar sé á bilinu 30 til 40% af því sem hún er í venjulegu árferði,“ segir Þórarinn og að þetta þýði umtalsvert fjárhagslegt tjón fyrir hann.

Aðspurður um hvort hann hafi þurft að kaupa mikið af heyi segir Þórarinn svo vera eða 120 rúllur. Hey liggi hinsvegar ekki á lausu fyrir þá sem eru í svipaðri stöðu og hann.

„Það voru frændur mínir á Borgarfirði eystra sem komu mér til bjargar með hey,“ segir Þórarinn. „Frændur eru því ekki alltaf frændum verstir.“

Aðspurður um hvort hann hafi nóg af heyi fyrir veturinn segir hann svo vera með því að minnka aðeins bústofninn.

Þórarinn bætir því við að hann viti til að bændur í nágrenni hans séu jafnvel í enn verri stöðu en hann sjálfur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.