Herpesveiran fannst á öðrum bæ á Héraði: Áfram rannsakað á Egilsstöðum

egilsstadabylid.jpg
Nautgripur sem gefinn var frá Egilsstaðabýli á annan bæ á Héraði fyrr á árinu virðist sýktur af herpesveirunni sem fannst þar nýverið. Veiran fannst ekki annars staðar á Austurlandi. Ekki tókst að einangra veiruna í þessari umferð en yfirdýralæknir segir að rannsóknum verði haldið áfram.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Matvælastofnun sendi frá sér í gær. Tekin voru sýni á öllum kúabúum í Austurlandsumdæmi, alls 40 talsins. Öll voru neikvæð nema endurtekið sýni frá Egilsstöðum og bænum Fljótsbakka í Eiðaþinghá.

„Gripurinn sem reyndist jákvæður á Fljótsbakka var gefinn frá Egilsstaðabúinu í febrúar á þessu ári. Sýni úr mjólkurtanki á Fljótsbakka var neikvætt og það gefur von um að aðrir gripir á búinu séu ekki smitaðir en blóðsýni verða tekin af öllum gripum á Fljótsbakka til að ganga úr skugga um það,“ segir í tilkynningunni.

Fljótsbakkabúið sætir nú svipuðum aðgerðum og Egilsstaðabúið áður, banni við sölu lífdýra og auknar smitvarnir.
 
Frekari rannsóknir þarf á Egilsstöðum 

Þá hafa einnig borist niðurstöður rannsókna á stroksýnum úr jákvæðum gripum á Egilsstöðum. Ekki tókst að eingrana veiruna úr þeim sýnum.

„Það þýðir að viðkomandi gripur er ekki að skilja út vírusa og  þá væntanlega er lítil smitdreifing í gangi - sem er gott. En það er ekki þar með sagt að gripirnir  séu lausir við smit,“ segir Halldór Runólfsson, yfirdýralæknir. „Eðli herpesvírusa  er að liggja í dvala og geta svo látið á sér kræla þegar gripurinn verður fyrir stressi.“

Bæði er leitað að veirunni til að staðfesta veru hennar á býlinu, til þessa hefur aðeins fundist mótefni í dýrunum og kanna hvaðan hún kemur. Halldór segir að þeirri vinnu verði haldið áfram.

„Við erum að leggja drög að því að leita betur - en það er of snemmt að segja frá því hvernig það verður gert“
 
Öll kúabú landsins skoðuð 
 
„Á Tilraunastöð Háskóla Íslands á Keldum er verið að ganga frá sýnum frá öðrum kúabúum á landinu og senda til rannsóknar. Niðurstöður þeirra rannsókna er að vænta í næstu viku. Á Keldum er einnig verið að gera tilraun til að rækta veiruna til frekari greiningar,“ segir í tilkynningu MAST.

„Þar sem sjúkdómurinn hefur ekki greinst áður á Íslandi er unnið að rannsóknunum í nýrri öryggisrannsóknastofu Tilraunastöðvarinnar. Tilgangur allra þessara rannsókna er að varpa skýrara ljósi á málið og á grundvelli niðurstaðna þeirra verður tekin endanleg ákvörðun um aðgerðir.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar