Herdís Þorgeirsdóttir: Forsetinn á ekki að sitja lengur en í 8 ár

ImageHerdís Þorgeirsdóttir, forsetaframbjóðandi, heimsótti Austurland á dögunum. Á hraðri yfirferð um byggðakjarna Austurlands kom hún víða við og heimsótti fyrirtæki og stofnanir. Austurglugginn fylgdist með Herdísi er hún var stödd í ALCOA Fjarðaál á föstudaginn sl.

Herdís lagði áherslu á lýðræði, heiðarleika og mannréttindi í framboðsræðu sinni. Hún sagði forsetinn gæti hjálpað þjóðinni með því að hlýða á þjóðina og það væri þörf á því sökum þess að „það er ljóst að þjóðin treystir ekki stjórnendum nógu vel, þjóðin ber ekki traust til Alþingis, þjóðin ber ekki traust til helstu stofnanna landsins.“ Herdís sagði ástæðuna fyrir vantrausti almennings vera sú að fólk treysti því ekki lengur að stjórnvöld bæru hag almennings fyrir brjósti. Þetta er m.a. ástæða þess að Herdís þiggur ekki styrki frá fyrirtækjum þó svo að henni „bráðvanti peninga“ en hún telur mikilvægara að aðskilja fjármálalífið frá stjórnmálunum með þessum hætti. „Stjórnmálamenn verða að vera heilir gagnvart fólkinu í landinu og þess vegna opna ég bókhaldið mitt og þigg ekki styrki frá fyrirtækjum og þess vegna hvatti ég aðra frambjóðendur til þess að gera slíkt hið sama. Þetta þurfa aðrir frambjóðendur að gera fyrir kosningar svo að við fáum forseta sem verður forsetinn eftir hrun en ekki einhver 2007 forseti með peningaöfl á bak við sig. Við þurfum forseta sem getur talað gegn spillingu“ sagði Herdís.
Herdís svaraði spurningum starfsmanna og ein af þeim spurningum var um það hvort hún hefði skoðun á því hversu lengi sami forsetinn ætti að sitja í embætti. Hún sagði að 8 ár væri hámark, tvö kjörtímabil svo að viðkomandi aðili yrði ekki samdauna embættinu. Hún sagði að sitjandi forseti væri búinn að sitja alltof lengi og „þegar hann var að gæla við útrásarvíkingana þá var það til votts um að hann væri búinn að sitja of lengi, það var 2007“ sagði Herdís.

 Image

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.