Helmingur þjóðarinnar hefur hug á að koma austur

Um helmingur þeirra Íslendinga sem hyggja á ferðalög í sumar hafa hug á að heimsækja Austurland. Konur eru spenntari fyrir svæðinu en karlar.

Þetta kemur fram í markaðsrannsókn á ferðalögum innanlands, sem EMC rannsóknir og auglýsingastofan Hvíta húsið gerðu í byrjun maí.

Alls sögðust um 90% aðspurðra líklegt að þau myndu ferðast innanlands í sumar. Þeir voru spurðir frekar um til hvaða landshluta væri líklegt að þeir myndu heimsækja Austurland. Það skilar fjórðungnum í þriðja sætið, Norðurland var vinsælast með 69% og Suðurland þar á eftir með 64%.

Ýmislegt áhugavert kemur í ljós þegar tölurnar fyrir Austurland eru skoðaðar nánar. Þannig er svæðið vinsælla meðal kvenna, 53% þeirra vilja heimsækja svæðið en 49% karla. Þá er svæðið vinsælla hjá hópnum 18-44 ára en 45 ára og eldri auk þess sem íbúar landsbyggðarinnar eru líklegri til að koma austur en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

Von er á flestum gestum í júlí, 90% aðspurðra segjast verða á ferðinni þá. Júní og ágúst eru einnig vinsælir, 2/3 verða á ferðinni þá. Flestir reikna með að fara í tvær eða fjórar ferðir og verði 6-15 daga í þeim.

Þeir sem komnir eru yfir fimmtugt eru líklegri til að fara bæði fleiri og lengri ferðir en þeir sem yngri eru. Könnunin sýnir fram á að efnahagur hefur áhrif á ferðalögin, þeir sem eru í miðstétt og efri stétt eru líklegri til að ferðast og vera lengur á ferðinni en þeir sem eru í lægri stétt. Þá eru þeir sem búa einir ólíklegri til að vera á ferðinni en þar sem fleiri eru í heimili.

Þessir þættir hafa áhrif á hvaða gistimöguleika fólk velur sér. Flestir, eða 60%, ætla af stað með tjald, fellihýsi eða annað slíkan búnað, yfir 40% velja sumarbústaði og orlofshús og aðeins færri verða á hótelum. Þeir sem hafa minna á milli handanna eða eru með stærri fjölskyldur velja síður gististaðina og þá virðast íbúar landsbyggðarinnar líklegri til að vera með tjaldhýsið í eftirdragi en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

Alls sögðust 60% reikna með að ferðast meira innanlands í sumar en í fyrra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.