Helgin: Fornleifar, frjálsíþróttir og listir

Málþing verður haldið um fornleifauppgröftinn á Stöðvarfirði um helgina, nýjar listsýningar opna, Meistaramót í frjálsíþróttum og tónleikar.

Félag áhugafólks um fornleifarannsóknir að Stöð í Stöðvarfirði stendur fyrir málþinginu í Stöðvarfjarðarskóla klukkan 14:00 á morgun. Framsögumenn verða Bjarni F. Einarsson, stjórnandi rannsóknarinnar, Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði og Haukur Árni Björgvinsson, landfræðingur.

Tónleikar með lögum við ljóð Þórarins Eldjárns verða á tveimur stöðum eystra á sunnudag. Annars vegar í Frystihúsinu á Breiðdalsvík klukkan 16:00 og á Eskifirði klukkan 20:00. Erla Dóra Vogler söngkona hefur leitt undirbúning tónleikanna en Lilja Guðmundsdóttir syngur með henni og Eva Þyri Hilmarsdóttir leikur undir.

Tónlistarstundir á Héraði halda áfram í Egilsstaðakirkju klukkan 20:00 á sunnudag. Systurnar Joanna Natalia og Maria Anna Szczelina leika þar á píanó og orgel en Úlfar Trausti Þórðarson tenór syngur auk þess sem Torvald Gjerde leikur með.

Í Neskaupstað opnar ljósmyndasýningin Kaupmaðurinn á horninu á morgun, laugardaginn 19. júní, í Þórsörk. Á sýningunni er að finna ljósmyndir Sigríðar Marrow af kaupmönnum hverfisverslana og bæja á landsbyggðinni en m.a. er að finna myndir úr Kaupfjelaginu Breiðdalsvík og af Nesbæ.

Kvenfélagið Björk stendur fyrir kaffihlaðborði í Hjaltalundi á morgun klukkan 15:00. Félag ljóðaunnenda á Austurlandi verður þar með dagskrá þar sem bækurnar „Ég skal segja ykkur það“ eftir Sólveigu Björnsdóttur og „Raddir daganna“ eftir Hannes Sigurðsson verða kynntar.

Eitt stærsta frjálsíþróttamót ársins verður haldið á Vilhjálmsvelli um helgina þar sem Meistaramót Íslands 11-14 ára fer fram. Keppni hefst klukkan 9:30 að morgni laugardags og stendur fram yfir klukkan þrjú. Keppt verður á svipuðum tíma á sunnudag.

Keppni í Íslandmótinu í knattspyrnu heldur áfram. Í annarri deild karla tekur Leiknir á móti Þrótti Vogum á morgun en Fjarðabyggð fer í Breiðholtið og mætir ÍR. Í þriðju deildinni tekur Höttur/Huginn á móti Augnabliki á morgun en Einherji fær Ægi í heimsókn á sunnudag. Í annarri deild kvenna fer Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir norður í land og mætir Hömrunum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.