Helgi Seljan um Edduverðlaunin; „Þetta er eiginlega allt pabba að kenna“

Reyðfirðingurinn Helgi Seljan hlaut í gærkvöldi Edduverðlaun sem sjónvarpsmaður ársins auk þess sem hann er hluti af Kastljóshópnum sem kosinn var frétta- eða viðtalsþáttur ársins.

 


Er þetta fyrsta Eddan sem Helgi hlýtur persónulega en í þriðja skipti en hann fær hana með samstarfsfólki sínu í Kastljósinu.

„Þetta er fyrst og fremst skemmtilegt,“ segir Helgi þegar hann er inntur eftir því hvaða þýðingu verðlaunin hafi fyrir hann sem sjónvarpsmann.

„Mér þótti eiginlega svolítið vænna um viðurkenningu þáttarins. Þetta brýnir mann bara fyrst og fremst í störfum sínum. Það er eins með þetta og margt annað, maður er ekki það sem maður getur, eða hefur gert, heldur það sem maður gerir.“

Kom þetta honum á óvart? „Já í raun og veru. Og jafnvel þó ég hafi ekki þótt neinn sérstakur stærðfræðinemi heima á Reyðarfirði, þá hafði ég nú fengið það að út að líkurnar voru talsverðar, eftir að tilkynnt hafði verið um tilnefningarnar um daginn.“

Helgi er ekki óvanur því að vera verðlaunaður fyrir vel störf, en hann hefur tvisvar sinnum hlotið Blaðamannaverðlaun og fjórum sinnum verið tilnefndur. Í ár er hann tilnefndur fyrir umfjöllun ársins.

 


Gekk illa að læra hnúta

Helgi hefur starfað í fjölmiðlum í rúman áratug, en hann hóf feril sinn hjá Austurglugganum haustið 2003. Þaðan fór hann á DV, þá á Talstöðina og svo á Stöð2. Hann hefur verið í Kastljósinu í tíu ár, síðan 2006.

„Þetta er eiginlega allt pabba að kenna. Hann sá að auglýst var eftir blaðamanni og hvatti mig til að sækja um og aldrei þessu vant hlýddi ég. Kannski af því að mér gekk svo illa að læra að hnýta hnúta, meðan ég vann í netagerðinni hjá honum Stebba hjá Egersund. Stebbi hafði eiginlega tekið mig að sér og í vinnu ári áður. Ég ætti nú eiginlega að senda honum þessa Eddu. Kalli Búa gæti í versta falli notað hana sem öskubakka, ef Stebbi hefur ekkert við hana að gera.

Ég gerði mér svo sem ekki miklar eða háar hugmyndir um að endast í blaðamennsku. En ég varð fljótt alveg hugfanginn af þessu starfi og er það sem betur fer enn.“

Ljósmynd: Helgi Seljan ásamt Inga R. Ingasyni. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.