Helgi Ómar: Sameining ME og Eiðaskóla mistókst gjörsamlega

Helgi Ómar Bragason, sem í sumar lét af störfum sem skólameistari Menntaskólans á Egilsstöðum eftir að hafa gegnt stöðunni í um aldarfjórðung, geðjast ekki að hugmyndum um sameiningar framhaldsskóla. Í honum situr bitur reynsla af sameiningu ME og Alþýðuskólans á Eiðum.


„Það var gerð ákveðin aðför að skólum á landsbyggðinni í fyrra þegar átti að fara að sameina skóla. Það var reynt að keyra í gegn sameiningu á Norðurlandi eystra en sú fyrirætlun lenti út í skurð. Okkur var sagt að það ætti að halda áfram og á einhverjum tímapunkti kæmi að okkur,“ segir Helgi Ómar í viðtali í síðasta tölublaði Austurgluggans.

„Þetta voru einhverjar hugmyndir sem komu frá menntamálaráðherra og birtust í fjárlögum. Við tókum fremur þunglega undir þegar ráðuneytismenn ræddu sameiningarhugmyndir við okkur skólameistarana eystra en bentum á að við værum með ákveðið hagræðingarstarf, fjarmenntaskóla.

Að honum eru flestir landsbyggðarskólarnir aðilar. Með honum má ná fram mikilli hagræðingu og halda uppi námsframboði með að sameina nemendum úr nokkrum skólum í námshóp og kenna í fjarnámi.

Við reynum að halda þessu á lofti en þá var eins og ráðuneytismenn vissu ekkert af skólanum eða út á hvað hann gekk.“

Enginn stuðningur frá ráðherra

Árið 1995 voru ME og Alþýðuskólinn á Eiðum sameinaðir undir merkjum ME. Sameiningin gekk til baka árið 1998 og var skólahaldi á Eiðum þá hætt. Það kom í hlut Helga Ómars sem skólameistara ME að fylgja sameiningunni eftir.

„Þessi sameining mistókst gjörsamlega. Forsendur breyttust, það urðu ráðherraskipti og sá sem tók við hafði engan sérstakan áhuga á að fylgja eftir samkomulaginu sem gert var. Það hafði ekki fengist neitt fé í viðhald á byggingunum á Eiðum áratugum saman og þær voru því í mjög döpru ástandi. Við sameininguna var reynt að byrja á að gera við það sem var brýnast.

Á Eiðum var tíundi bekkur og fyrstu ár framhaldsskólans en algegnt var að krakkar þaðan færu síðan í Egilsstaði. Sveitarfélögin sem sent höfðu krakka í Eiða í tíunda bekk hættu því og þar með fór stór hluti nemenda.

Fyrstu árin keyrðum við nemendum héðan frá Egilsstöðum og nemendur á fyrsta ári voru alfarið á Eiðum. Það stóð líka til að setja upp ákveðnar brautir á Eiðum en úr því varð ekkert enda var stuðningur ráðuneytisins við sameininguna enginn. Þegar henni var slitið árið 1998 var kominn gríðarlegur hallarekstur á skólann.

Þótt það hafi verið ákveðin vonbrigði þá má segja eftir á að þetta hefði aldrei gengið. Það var enginn áhugi á að skapa þessum skóla sérstöðu innan skólakerfisins. Héraðsskólanir voru líka hver af öðrum að leggja upp laupana.“

Minnsta einingin hverfur

Af fenginni reynslu leggst Helgi Ómar því gegn sameiningu framhaldsskóla. „Miðað við þá reynslu sem ég hef líður ekki á löngu þar til minnsta og óhagkvæmasta einingin er horfin.

Fjárveitingin er svo knöpp að skera verður niður óhagkvæmasta reksturinn. Í mínum huga þýðir sameining bara fækkun skóla. Á þá bara að hafa einn í Reykjavík og annan á Akureyri því þar fyrir utan eru bara smáskólar.

Ég held að það sé vænlegra að efla samvinnu fremur en ráðast í sameiningar. Þær skila ekki árangri nema að vel athuguðu máli. Það er bent á að vel hafi gengið að sameina skattstofur en þær eiga ekkert sameiginlegt með skólum.“

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.