Heitar umræður í jafnréttisviku ME

Jafnréttisnefnd Menntaskólans á Egilsstöðum, í samstarfi við Nemendafélag ME og Femínistafélag ME, hefur í vikunni staðið fyrir jafnréttisviku í þeim tilgangi að fræða og efla umræðu um jafnréttismál innan skólans.


„Það var fjölbreytt dagskrá í boði. Það var sýndur sjónvarpsþáttur um jafnrétti og Druslugönguna sem gengin hefur verið núna í nokkur ár. Það var líka boðið upp á fyrirlestur um staðalímyndir, jafnréttisbíó og Guðrún Veiga heldur fyrirlestur upp úr mastersritgerð sinni um kynjahlutverk í parasamböndum“ sögðu þau Guðgeir Einarsson og Andrea Rós Beck Helgadóttir, en þau sitja í jafnréttisnefnd ME, sem skipuð er fulltrúum starfsfólks og nemenda, auk þess sem Andrea er félagi í Femínistafélagi ME og Guðgeir situr í stjórn NME.

 

Gríman látin falla

Einnig var svokallaður Grímulaus dagur hluti af dagskránni, en þar voru stelpur sérstaklega hvattar til þess að mæta ómálaðar, og nemendur almennt til þess að taka af sér grímuna og vera eins og þeir eru, í stað þess að eltast við staðalímyndir – og vera í því sem hverjum og einum finnst þægilegt, en ekki endilega elta tískuna.

„Það var mismikil þátttaka. Sumir vinahópar taka þátt, aðrir ekki“ sögðu þau Andrea og Guðgeir.

 

Umdeilt stelpukvöld

Það sem vakti þó hvað mesta athygli og umræðu var að auglýst var stelpukvöld í íþróttatíma á vegum menntskælinga í íþróttahúsinu.

 

„Það varð mikið fjaðraflok í kringum það og miklar umræður sköpuðust á spjallþráðum. Sumir vildu meina að þetta tengdist ekki jafnrétti. Þarna væri verið að ýta öðru kyninu upp og sumum fannst það vera á kostnað strákanna í þessu tilfelli. Það varð hrikalegt vesen, yfir 200 komment sem sum hver voru bara ærumeiðandi. En við vorum þó ánægð með það að sumu leyti að þessi umræða skapaðist.

 

Við héldum stelpukvöldið og það mættu stelpur sem hafa aldrei mætt og hefðu aldrei mætt ef að strákarnir hefðu mætt líka. Þetta snérist um það að stelpurnar mæta nánast aldrei en ekki um að við værum að halda strákunum niðri. Við vildum bara ýta við stelpunum og fá þær til þess að mæta í íþróttahúsið.“

 

Vilja meiri þátttöku frá þeim sem tjá sig á netinu

Þau segja dagskránna hafa verið fyrir hugsaða fyrir alla og hefðu gjarnan viljað að allir þeir sem tóku virkan þátt í umræðunni hefðu látið sjá sig og tekið virkari þátt í dagskránni.

 

„Við erum ekki að einblína á annað kynið. Í fyrirlestrinum í gær var sem dæmi einnig talað um pressuna á stráka að vera massaðir og svona eða hinsegin. Pressu sem myndast til dæmis í gegnum bíómyndir og samfélagsmiðla.
Það höfðu allir eitthvað að segja um þetta stelpukvöld, en flestir þorðu aðeins að tjá sig bak við tölvuskjáinn. Það var ekki mikil þátttaka í fyrirlestrinum í gær, og eiginlega enginn þeirra sem tjáðu sig hæst á kommmentakerfinu létu sjá sig. Maður veltir fyrir sér, ef þetta skiptir fólk svona miklu máli, af hverju mætir það þá ekki á fyrirlestur?“

 

Guðgeir og Andrea eru bæði á því að dagskrá sem þessi skipti mjög miklu máli og vonast bæði eftir því að hún eigi eftir að ýta undir jafnrétti. Aðspurð um hvað sé mikilvægast þegar að því kemur er samhljómur í svörunum.

 

Andrea: „Að allir fái sömu tækifærin.“
Guðgeir: „Að allir standi jafnt í samfélaginu.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.