Hefði verið betra að geta lent á Höfn

Æskilegt er að opna verði fyrir millilandaflug um flugvöllinn á Hornafirði til að auka öryggi flugfarenda. Það er ein af ábendingum Rannsóknarnefndar samgönguslysa eftir rannsókn á því þegar lítil vél á leið til Egilsstaða sendi frá sér neyðarkall.

Atvikið átti sér stað í 4. júlí 2014. Flugmaður, sem hugðist fljúga hringinn í kringum jörðina, var þann dag á leið frá Færeyjum til Egilsstaða. Áður en hann fór frá Færeyjum aflaði hann sér upplýsinga um að á Egilsstöðum væri hálfskýjað og taldi það hentug skilyrði.

Flugmaðurinn var á ferðinni í Rand Robinson, lítilli eins sætis flugvél og flaug sjónflug. Þegar hann kom upp að austurströndinni flaug hann inn í ský. Hann reyndi að fljúga upp úr þokunni en þar hætti hæðarmælirinn að virka.

Þegar flugmaðurinn varð þess var að flugvélin hegðaði sér ekki eins og hún átti að gera sendi hann frá sér neyðarkall. Samkvæmt skýrslunni var hann þá staddur í mynni Seyðisfjarðar. Flugmaðurinn lækkaði flugið niður í 200 fet, flaug til norðurs og síðar inn Héraðsflóa og þaðan upp til Héraðs.

Talsverður viðbúnaður hjá viðbragðsaðilum, einkum þar sem vélin hvarf af ratsjám skömmu eftir að neyðarkallið barst. Óttast var að hún hefði endað í sjónum eða flogið í fjöll. Fljótlega kom þó í ljós að vélin var á leið inn Héraðsflóann og lenti á Egilsstöðum rúmum hálftíma eftir að neyðarkallið var sent.

Í skýrslu nefndarinnar er haft eftir veðurfræðingi að skilyrði á Höfn þennan dag hefðu verið mun betri. Flugvöllurinn þar er hins vegar ekki vottaður millilandaflugvöllur og vélinni því beint til Egilsstaða. Nefndin beinir því til samgönguráðherra og sveitarstjórnar að gera vélum sem koma erlendis frá kleift að lenda þar.

Þá gerir nefndin athugasemdir við að flugveðurspá Veðurstofu Íslands hafi eingöngu verið aðgengileg á íslensku og í því þurfi að bæta. Eins verði flugmenn sem hyggjast fljúga sjónflug til Íslands að forðast skýjabakka.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.