HB Grandi kaupir þorskkvóta til vinnslu á Vopnafirði

HB Grandi hefur keypt tæplega 1600 tonna þorskígildiskvóta af Hafnarnesi í Þorlákshöfn. Kvótinn er ætlaður í nýja vinnslu á Vopnafirði.


Þetta kemur fram í tilkynningu sem HB Grandi sendi frá sér síðdegis. Kaupverðið er tæpir fjórir milljarðar króna.

Ríflega helmingur aflaheimildanna er í þorski og segir í yfirlýsingunni að með kaupunum sé tryggður afli til vinnslu á Vopnafirði án þess að skerða afla til annarra starfsstöðva félagsins.

Framkvæmdir eru þar hafnar við nýja bolfiskvinnslu sem taka á til starfa í haust. Tilkynnt var um uppbygginguna á íbúafundi á Vopnafirði í byrjun febrúar.

Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri Granda, sagði þá uppbygginguna í bolfiskinum ætlaða til að mæta samdrætti og sveiflum í uppsjávarveiði sem verið hefur sérgrein Vopnafjarðar síðustu ár.

Stjórnendur HB Granda hafa skoðað ýmsa möguleika, svo sem frekari vinnslu kolmunna, en að lokum komist að þeirri niðurstöðu að bolfiskvinnsla væri eini raunhæfi valkosturinn með viðunandi arðsemi. Undirbúningur var þá skammt á veg kominn og Vilhjálmur kvaðst þá ekki geta svarað hvers konar sérhæfing yrði í vinnslunni né hvaða kvóti yrði nýttur.

„Við eigum mikið undir starfseminni hér sem hefur að miklu leyti haldið uppi afkomu félagsins undanfarin ár því afkoma uppsjávarveiðanna hefur verið góð. Við erum hér með flott starfsfólk og höfum fjárfest mikið í vinnslu en horfum fram á að við erum ekki færir um að skapa næga vinnu með uppsjávarvinnslu,“ sagði Vilhjálmur þá í samtali við Austurfrétt.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.