Harðgerður Tyrki tjaldar á Egilsstöðum

Það vakti óskipta athygli starfsmanns Austurfréttar, þegar hann kom til vinnu í morgun, að reist hafði verið tjald utan undir húsvegg á gamla KHB húsinu í miðbæ Egilsstaða. Á ellefta tímanum lét svo tjaldbúinn sjá sig og var hinn sprækasti.

 

Ferðalangurinn reyndist vera ungur Tyrki, Mert að nafni, sem er búinn að vera á ferðalagi um Ísland í um viku tíma og ætlar sér að vera eitthvað lengur á ferðinni. Hann sagði aðspurður að það hefði ekkert væst um hann, en þótt kuldalegt sé um að litast á Egilsstöðum var hiti rétt um frostmark í nótt, féll þó niður undir -2 gráður undir morgun.

 

„Það var ekkert svo óskaplega kalt. Það var svolítill vindur en ég fann mér gott skjól af húsinu“ sagði Mert og var hinn ánægðasti með næturstaðinn. „Ég ferðast um á puttanum, enda á ég litla peninga. Ég ætla að ferðast næst um Austurland, fara svo norður og eftir það aftur til Reykjavíkur og heim.“

 

Lengri urðu samræður ekki, enda ákveðnir tungumálaörðugleikar milli manna. Ferðalangurinn var þó föðurlega áminntur um að spyrjast fyrir um veður áður en lagt væri á fjallvegi og lofaði brosmildur að fara varlega á ferðum sínum um Ísland á Þorra.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.