Hálslón snemma á yfirfall

Hálslón fór á yfirfall á föstudagskvöld. Einu sinni áður í rekstrarsögu Kárahnjúkavirkjunar hefur það gerst svo snemma. Rennsli þar er nú meira en í yfirstandandi Skaftárhlaupi.

Samkvæmt frétt frá Landsvirkjun fór lónið á yfirfall klukkan ellefu á föstudagskvöld. Tíu ár eru síðan það fylltist fyrst, en aðeins árið 2010 fór það fyrr á yfirfall, þá 28. júlí. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu er reiknað með að lónið fari á yfirfall um mánaðarmótin ágúst/september í meðalvatnsári.

Hlýtt sumar er ástæða þess hve snemma lónið fer á yfirfall en hlýtt hefur verið eystra og mikil bráðnun á Brúarjökli.

Þegar lónið fer á yfirfall myndast fossinn Hverfandi við vesturenda stíflunnar þaðan sem hann fellur 90-100 metra niður í Hafrahvammagljúfur og getur hann orðið vatnsmeiri en Dettifoss.

Rennsli í honum í gær mældist 212 m3/sek en fór í fyrra mest í 625 m3/sek um mánaðarmótin september/október. Til samanburðar má nefna að rennsli í yfirstandandi Skaftárhlaupi mældist mest 1557 m3/sek við Sveinstind aðfaranótt sunnudags og 257 m3/sek við Kirkjubæjarklaustur um morguninn.

Tvö önnur miðlunarlón Landsvirkjunar fylltust nánast á sama sólarhringnum og Hálslón. Öll lón fyrirtækisins eru þar með komin á yfirfall. Það gerðist síðast svo snemma árið 2006.

Þá hefur Ufsarlón í farvegi Jökulsár á Fljótsdal, sem er hluti af Kárahnjúkaverkefninu, verið haldið opnu að hluta síðan í vor. Girðingar meðfram ánni sem eru hluti af varnarlínum sauðfjárveikivarna eyðilögðust á stórum kafla í flóðum síðasta haust og hefur vatni verið hleypt í árfarveginn fyrr en önnur ár til að viðhalda varnarlínunni.

Þess utan var það sett sem skilyrði í virkjunarleyfinu á sínum tíma að yfirfallsvatn yrði nýtt skipulega á ferðamannatíma til að viðhalda fossum árinnar.

Mynd úr safni Landsvirkjunar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.