Hákon Hansson: Hér voru fyrirheit um að halda uppi fullri atvinnu

Breiðdælingar horfa bjartari augum á framtíðina nú en oft áður eftir vinnu með Byggðastofnun til að styrkja byggðina. Á 20 árum fækkaði íbúum þar um helming þegar seig á ógæfuhliðina í atvinnuvegum hreppsins.


„Vandinn er fyrst og fremst sá að íbúum hefur fækkað um helming. Meðalaldur var orðinn með þeim hæstu á landinu en íbúar gerðu sömu kröfur um þjónustu og annars staðar, sem er eðlilegt. Hver nemandi verður dýr í skóla með 16 nemendum í 10 bekkjum.

Mikið var lagt upp úr góðri aðstoð við aldraða þannig þeir gætu verið eins lengi heima og hægt er en að lokum þarf að flytja úr byggðarlaginu sem reynist oft erfitt.“

Þannig lýsti Hákon Hansson, oddviti hreppsins, stöðunni sem komin var upp við upphaf tveggja daga ráðstefnu Byggðastofnunar sem haldin var á Breiðdalsvík í síðustu viku. Ráðstefnunni var meðal annars valinn þar staður út af því að Breiðdalshreppur er þátttakandi í verkefninu Brothættar byggðir sem stofnunin heldur úti til að efla byggðarlög í bráðum vanda.

Íbúar Breiðdalshrepps eru í dag um 180 en voru 350 árið 1990 samkvæmt tölum Hagstofunnar. Í setningarávarpi sínu rakti Hákon hvernig fjarað hefði undan byggð í Breiðdalnum.

Fjarar undan fiskvinnslunni

Útgerðin þar var í blóma á níunda áratugnum og frá Breiðdalsvík. Nýtt skip, Hafnarey hið fyrsta í raðsmíðaverkefni skipasmíðastöðvanna, var gert þaðan út með 1400 tonna kvóta og sá Hraðfrystihúsi Breiðdalsvíkur fyrir öruggu hráefni. Bjartsýni ríkti og í lok áratugarins var keypt annað skip, Andey frá Póllandi, með 800 tonna kvóta.

Tekið var að halla utan fæti. Þótt atvinna væri næg á staðnum lenti frystihúsið í greiðslustöðvun og skoðaðar voru sameiningar við fiskvinnslur í nálægum fjörðum. Að lokum keypti Búlandstindur á Djúpavogi frystihúsið sem þá hét orðið Gunnarstindur.

„Fyrirheit voru um að halda uppi fullri atvinnu en það gekk eftir í fjögur ár,“ sagði Hákon. Þá keypti Vísir í Grindavík Búlandstind. „Eftir það lagðist öll fiskvinnsla á Breiðdalsvík og var í skötulíki hér næstu fimmtán árin.“

Hákon viðurkenndi að Breiðdælingar hefðu spennt bogann hátt en þeir hefði „ekki alltaf verið sjálfráðir“ og breytingar á kvótakerfi hefðu reynst erfiðar.

Áföllin voru víðar en í útgerðinni. Sauðfjárrækt hefur löngum verið öflug í Breiðdal en árið 1975 greindist riðuveiki þar sem „breiddist út með ógnarhraða.“ Af um 30 bæjum þurfti að skera niður á öllum nema tveimur.

Heimamenn telja vel hafa tekist til

Andrúmsloftið í sveitarfélaginu var orðið verulega þungt og hreppurinn vondum málum fjárlagslega fyrir 2-3 árum. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga íhugaði að yfirtaka reksturinn. Ráðist var í aðgerðir sem virðist skila árangri.

„Við gerðum samning við innanríkisráðuneytið og nefndina og það hefur gengið vel. Skuldir okkar hafa lækkað verulega á síðastliðnum tveimur árum.“

Árið 2013 fór Breiðdalsvík inn í brothættar byggðir. Verkefnið hófst með íbúaþingi í nóvember það á. „Það er mat heimamanna að vel hafi tekist til. Nokkur verkefni eru komin vel á veg og öðrum lokið. Stuðningur og hvatning stofnana hefur verið mikilvægur.“

Þarf fjölbreytt atvinnutækifæri

Endurnýjun hefur orðið í sveitinni síðustu misseri og í fyrra tók til starfa fiskvinnsla Ísfisks þar sem tíu manns starfa. Ferðaþjónustunni í hreppnum hefur vaxið verulegur fiskur um hrygg.

Hákon sagði að til að fá ungt fólk til staðarins þyrfti að bjóða upp á fjölbreytt atvinnutækifæri. Alltaf sé spurn eftir réttindakennurum, dýralæknir hafi verið á staðnum í 40 ár og nýverið hafi verið flutt þangað Borkjarnasafn Íslands sem verður undir eftirliti Breiðdalsseturs. „Það er dæmi um aðgerð sem tókst vel með samvinnu heimamanna og viðkomandi stofnunar.“

Hugmyndir eru um að þróa Breiðdalssetur í átt að háskólasetri á sviði jarðfræði. „Þar rekumst við á veggi enn sem komið er. Það þyrfti tíu milljónir árlega í viðbót í framlag til að byggja það upp.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.