Hafró kynnir svæði fyrir 22.000 tonna fiskeldi á Austfjörðum

Hafrannsóknastofnun (Hafró)hefur sent Skipulagsstofnun til kynningar tillögu sína að afmörkun eldissvæða fyrir fiskeldi í Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði. Um er að ræða 15.000 tonn í Fáskrúðsfirði og 7.000 tonn í Stöðvarfirði.

Eldissvæðin eru þrjú í Fáskrúðsfirði, við Eyri/Fögrueyri, Höfðahúsabót og Æðarsker og skiptist magnið jafnt á milli þeirra þriggja. Í Stöðvarfirði er um að ræða eitt svæði í sunnanverðum firðinum.
Burðarþolsmat Hafró fyrir Fáskrúðsfjörð byggir á gögnum frá 2016 en fyrir Stöðvarfjörð er matið frá 2017.

Í tilkynningu frá Skipulagsstofnun segir m.a. að með breytingum á lögum um fiskeldi sem tóku gildi árið 2019 er kveðið á um að Hafrannsóknastofnun ákveði eldissvæði í sjó á grundvelli burðarþols og bestu heildarnýtingar mögulegra eldissvæða.

Við kynningu tillögunnar nú gefst stjórnvöldum aðliggjandi sveitarfélaga og þeim sem búa yfir þekkingu á náttúrufari og nýtingu á svæðinu tækifæri til að koma á framfæri upplýsingum um aðstæður og starfsemi á svæðinu sem mikilvægt er að hafa í huga, áður en ákvörðun er tekin um afmörkun eldissvæða.

Allir geta kynnt sér tillögu Hafrannsóknastofnunar að eldissvæðum í Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði og lagt fram athugasemdir til 14. ágúst n.k. en tillögurnar eru á vefnum skipulag.is.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar