Hafnar því að búvörusamningurinn sé framleiðsluhvetjandi

Stjórnarmaður í Bændasamtökunum segir það ódýra skýringu að leita skýringa að vanda sauðfjárbænda í nýjum búfjársamningum. Það erfiðasta í samskiptum við ríkið sé að þar sé enginn vilji til að taka á aðsteðjandi birgðavanda.


„Nú er fyrst að koma kjöt á markað eftir að nýi samningurinn gekk í gildi. Hann hefur engin áhrif á þessa stöðu,“ sagði Einar Ófeigur Björnsson frá Lóni II í Kelduhverfi á fundi sauðfjárbænda á Austurland á þriðjudagskvöld.

Á töluðu hins vegar bændur sem vöruðu við að samningurinn væri framleiðsluhvetjandi. Hver sem hafi land geti framleitt lambakjöt og greitt sé fyrir ásetta gripi, framleiðslu fóðurs og fleira.

Einar Ófeigur situr í stjórn Bændasamtakanna og var í samninganefnd um nýjan búvörusamning sem tók gildi um síðustu áramót. Hann benti á að minni framleiðsluhvati væri í nýja samningnum heldur en þeim sem var áður í gildi. Eins sé búið að taka út vaxandi greiðslur til nýliða eftir því sem þeir fjölgi fé.

Þá sé í samningunum ákvæði um minnkun beingreiðslna ef ekki náist framleiðslumarkmið. „Ég blæs á þetta kjaftaði um að þessi samningur sé framleiðsluhvetjandi.“

Engar tillögur enn

Við sauðfjárbændum blasir verðfall upp á 35%, til viðbótar við verðfall í fyrra. Það leiðir til þess að sum bú verða rekin með tapi og bændur jafnvel launalausir.

Ástæðurnar eru nokkrar. Gengi krónunnar þýðir að lægra verð fæst af erlendum mörkuðum þar sem verð hefur ýmist lækkað eða þeir lokast. Staðan sé sú að nánast þurfi að greiða með útflutningi. Við bætist mikil framleiðsla í haust eftir gott ár þegar birgðir séu þegar til staðar.

Við stöðunni hefur verið varað í nokkurn tíma og á síðustu fjárlögum fékkst stuðningur til útflutnings. Stefnt var að því að selja 1000 tonn aðeins seldust 700. Það hefur lagað birgðastöðuna en á móti verður hluta stuðningsins skilað þar sem markmiðiðn náðust ekki.

Samtal sauðfjárbænda við landbúnaðarráðherra hafa staðið í hátt hálft ár. Engar tillögur liggja enn formlega fyrir fyrir um lausn á vandanum en ýmislegt hefur verið rætt.

Ekki tekin ákvörðun að hausti um að hætta

Einar Ófeigur sagði að sumar þeirra væru ekki hægt að bera á boð fyrir bændur félagslega, til dæmis þær sem fælu í sér mismunum eftir aldri. Hann varaði einnig við „mútufé“ frá ráðherra í ár sem væru greiðslur sem kæmu ekki í veg fyrir ófremdarástand að ári.

Um leið varaði hann við áformun um að hjálpa bændum til að hætta búskap. „Ef menn ætla að hætta þá er sú ákvörðun tekin að vori en ekki hausti.“

Í sauðfjárrækt er ákvörðun um framleiðslu tekin eitt og hálft ár fram í tímann. Bændur panta áburð um áramót sem hefur áhrif á slátrun þeirra þar næsta haust. Staðan nú er sú að fóðurfengur hefur verið óvenju góður síðustu ár og hefur Austurfrétt spurnir af bændum sem hyggjast fjölga fé til að láta það éta forðann. Eins hafa þeir vonast eftir að frjósemi skili þeim hærri heildartekjum til að mæta lægra afurðaverði.

Óttast stjórnlaust hrun í sveitum

Einar Ófeigur segir það alvarlegasta í viðræðum við ríkið að enginn vilji sé til að taka á umframkjötinu, sem sé þó það sem þurfi að gera. Verði það ekki gert sé hætt á að lambakjöt falli í verði innanlands og verðið haldist lágt næstu fimm ár.

Það muni hafa varanlegar afleiðingar. „Það er ekkert mál að lifa með litlar skuldir á þessu verði í nokkur ár en það gengur ekki fyrir aðra. Ég óttast hrun í ákveðnum byggðum en það verður stjórnlaust.“

Einar Ófeigur sagði einnig að búa yrði þannig um hnútana að ef ríkið gripi inni þá skiluðu þær árangri til lengri tíma litið. Ekki væri hægt að biðja um hjálp ár eftir ár. „Ef sauðfjárræktin á að vera áfram sú kjölfesta sem hún er í byggðunum verður varan að standa undir helmingi veltunnar. Miðað við stöðuna nú fá bændur fimm milljarða frá ríkinu en 3,5 milljarða úr afurðaverðinu. Það getur ekki haldið áfram til lengdar.“

Að hans mati er eina leiðin til að halda greininni gangandi til lengdar að geta selt erlendis. Á næstunni er von á sendinefnd frá Kína til að taka út sláturhús en hún má ekki vekja of miklar vonir. „Hún leysir engan bráðabanda. Það liðu tíu ár frá því Finnar tóku á móti fyrstu sendinefndinni frá Kína þar til þeir fengu að flytja út.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.