Hæstiréttur þyngdi refsingu fyrir meiðyrði í garð lögreglumanns

Hæstiréttur þyngdi refsingu sem karlmanni á sextugsaldri var gerð í héraðsdómi Austurlands fyrir ærumeiðandi aðdróttanir í garð lögreglumanns á Facebook. Skaðabótakröfu lögreglumannsins var hins vegar vísað frá vegna formgalla.


Íbúi á Eskifirði sakaði lögreglumann á staðnum um „hafa að sögn, sent táningum og unglingsstelpum kynferðisleg skilaboð og jafnframt boðið þeim upp á „afslátt“ gegn ???“

Í dómi Hæstaréttar segir að af samhengi ummælanna verði ekki annað ráðið en með þeim hafi ákærði sakað lögregluþjóninn um að hafa haft í hyggju að misnota aðstöðu sína gagnvart ungmennum.

Að teknu tilliti til alvarleika ummælanna skuli ákærði greiða 100.000 króna sekt til ríkissjóðs. Héraðsdómur Austurlands hafði áður dæmt manninn til að greiða 30.000 króna sekt.

Hæstiréttur vísar hins vegar frá dómi héraðsdóms um að ákærða beri að greiða lögreglumanninum 150 þúsund krónur í bætur. Einkaréttarkröfunni er vísað frá þar sem skilyrðum laga um útgáfu framhaldsákæru hafi ekki verið fullnægt.

Ákærði áfrýjaði dómi héraðsdóms sem féll í fyrra. Honum er einnig gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, 570 þúsund en málsvarnarlaun verjanda hans eru stærstur hluti þeirra.

Maðurinn birti á Facebook-síðu sinni um miðjan maí 2013 ummæli um lögregluþjóninn með ýmsum aðdróttunum. Ákært var fyrir sjö ummæli en sakfellt fyrir ein í héraði.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.