„Guði sé lof fyrir internet“

Fjölskylda frá Norðfirði sem hefur verið í heimsreisu síðan um miðjan desember var meðal þeirra sem þurfti að forða sér hærra upp í land þegar jarðskjálfri sem mældist 7,2 stig reið yfir strönd Fídji-eyja í gærkvöldi og flóðbylgjuviðvörun var gefin út í kjölfarið. Engan sakaði og viðvöruninni hefur verið aflétt.

Austurglugginn sagði frá þeim Kristínu Ágústsdóttur, forstöðumanni Náttúrustofu Austurlands, Marinó Stefánsson, sviðsstjóra framkvæmda-, umhverfis- og veitusviðs Fjarðabyggðar og börnum þeirra þremur í jólablaði Austurgluggans, en þau lögðu upp í heimsreisu um miðjan desember og voru á Nýja-sjálandi um jólin hjá fjölskyldu sem Kristín dvaldi hjá yfir 25 árum þegar hún var skiptinemi í landinu.

Samvæmt upplýsingum mbl.is voru upptök skjálftans á hafi úti, í um 220 km fjarlægð frá Nadi og 283 km fjarlægð frá höfuðborg Fídji, Suva.

Í samtali við mbl.is segir Kristín að starfsmaður hótelsins sem þau dvöldu á hafi sagt þeim að þau þyrftu að fara upp í hæðirnar vegna flóðbylgjuviðvörunnar, en að allir starfsmenn hafi verið rólegir. Fjölskyldan var keyrð í kirkju sem var í fimmtán mínútna fjarlægð frá hótelinu og beið þar ásamt fleirum þar til hættuástandi var aflýst klukkutíma síðar.

Kristín sagðist einnig hafa verið frekar óróleg meðan beðið var eftir bílnum til þess að flytja þau af stað og segir fjölskylduna ekki hafa lagt áherslu á að komast með fyrsta bíl til baka enda flestum í fersku minni náttúruhamfarirnar á Indlandshafi jólin 2004 og í Japan 2011.

Kristín sagði jafnframt að börnin hafa verið frekar óróleg en eftir að hafa skoðað á netinu hvað hæstu flóðbylgjurnar á Taílandi voru háar á sínum tíma hafi þau róast, „Guði sé lof fyrir internet,“ varð henni að orði.

Fjölskyldan kemur heim um miðjan janúar, en síðasti hluti ferðarinnar verður til stórborgarinnar Los Angeles í Bandaríkjunum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.