Gott norðanrok: Ófært í Hamarsfirði vegna veðurs

Veginum frá Djúpavogi að Þvottá var lokað upp úr hádeginu vegna veðurs. Um 60 m/s vindhviður hafa mælst í Hamarsfirði.

„Það er gott norðanrok hér en enginn snjór að ráði. Eftir 25 ár á Reyðarfirði finnst manni þetta ekki snjór,“ segir Eiður Ragnarsson.

Hann býr á Djúpavogi en rekur ásamt fjölskyldu sinni ferðaþjónustu að Bragðavöllum í Hamarsfirði. Tvær vindhviður upp á 60 m/s hafa mælst þar á mæli Vegagerðarinnar í dag og ein í gær.

„Það er að hvessa hér,“ segir Eiður sem var í Hamarsfirði í morgun.

Auk Hamarsfjarðarins er vegirnir yfir Fagradal, Fjarðarheiði, Hellisheiði, Mývatns- og Möðrudalsöræfi og Vatnsskarð lokaðir vegna snjóa og óveðurs. Þannig hefur staðan verið nánast síðan á þriðjudag.

„Við fengum ferðamenn í gistingu í gærkvöldi sem tóku beygjuna til okkar þegar þeir sáu lokunarskiltin. Þeir fara ekkert í dag heldur sitja og spila í bústaðnum,“ segir Eiður.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.