Skoða hitaveitu á Vopnafirði með varma frá vinnslu Brims

Gangi hugmyndir sjávarútvegsfyrirtækisins Brims á Vopnafirði eftir að fullu gæti verið vel hægt að nýta orku vinnslustöðva fyrirtækisins til keyrslu fjarvarmaveitu. Slík veita gæti hugsanlega nýst til að hita upp hluta þorpsins sjálfs.

Fyrirtækið lengi leitað leiða til að nýta betur þá orku sem til staðar er þegar keyrsla er í vinnslustöðinni og allt á fullum afköstum. Ein leið sem vænleg þykir og Brim þegar hafið rannsóknir á er uppsetning fjarvarmaveitu. Þær veitur nota rafskautakatla (rafmagn) til gufuframleiðslu sem aftur hitar upp allt hringrásarvatn en þannig má lækka húshitunarkostnað verulega.

Spennandi kostur

Að sögn Sveins Margeirssonar, framkvæmdastjóra nýsköpunar og loftlagsmála hjá Brim, hefur verkefni þetta verið síður en svo í biðstöðu síðan það var kynnt með óformlegum hætti fyrir sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps síðasta sumar.

„,Staðan núna er sú að við erum búnir að setja upp varmaskipti og tilbúnir í frekari framkvæmdir vegna þessa innan veggja fyrirtækisins. Það hefur dregið aðeins kraft úr verkefninu þessi algjöra skerðing á raforku og við þurftum því til að auka framleiðslugetu að fara að keyra á olíu. Við höfum þó nýtt þann tíma til að greina þetta verkefni betur og mjög margt komið í ljós sem bendir til að þetta geti verið mjög skynsamleg leið að fara og þá í einhvers konar samstarfi við sveitarfélagið.“

Búið er að reikna út að gangi allt eftir verði hægt að framleiða næga orku fyrir bæði fyrirtækið sjálft og þorpið allt í raun.

„Það yrði nægileg orka til þess þegar við værum með verksmiðjuna í rekstri. Það er þó ekki sjálfgefið að það myndi borga sig kostnaðarlega séð að fara með dreifiveitu um allan bæinn, brjóta upp götur og annað sem því myndi fylgja. Við höfum svona verið að sjá fyrir okkur að tengja bara stærstu einingarnar í bænum eins og okkar stöðvar, skóla og íþróttahús inn á slíkt kerfi og taka frekari ákvarðarnir með tilliti til framtíðarþróunar byggðarinnar. En það er þó ekki búið að greina þetta ferli að fullu að svo stöddu.“

Fleira þarf til

Annað sem skiptir máli í þessu sambandi er hvernig leysa eigi málin þegar verksmiðja Brims sé ekki í rekstri. Leitað hefur verið að heitu vatni með borunum í Selárdal um tíma en lítið komið í ljós enn sem komið er. Áfram skal þó leitað þar í sumar.

Sveinn segir Brim vera í góðu sambandi við sveitarfélagið vegna þessara hugmynda allra þó ekki sé um neitt formlegt samvinnuverkefni á þessu stigi að ræða.

„Við höfum átt gott samstarf og deilt okkar á milli hugmyndum og möguleikunum sem í þessu gæti falist. Þetta veltur töluvert á hvað kemur í ljós með borunum í Selárdalnum og ekki síður hvað kemur í ljós þegar við förum að láta reyna á þessa möguleika í okkar eigin rekstri. Sú reynsla mun gefa betur til kynna hvað vænlegt er að gera í framhaldinu.“

Starfsstöð Brims á Vopnafirði notar mikla raforku þegar vertíð stendur sem hæst. Nýta mætti þá orku enn betur en nú er gert og hugsanlega nýtast bæjarbúum líka. Mynd GG

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.