Gleymum ekki móttökunum sem við fengum

Um tveir af hverjum þremur íbúum Seyðisfjarðar fengu í dag heimild til að snúa heim aftur. Hjónin Guðjón Harðarson og Hrönn Ólafsdóttir voru meðal þeirra fyrstu sem komu aftur á heimili sín. Þau segja einstaklega vel hafa tekið á móti bæjarbúum sem þurftu allir að yfirgefa bæinn á föstudag eftir aurskriður.

„Ég er glöð að vera komin heim en samt svolítið stressuð, ég viðurkenni það. Það skiptir mestu máli að enginn slasaðist. Allt hitt má bæta finnst mér,“ segir Hrönn.

„Ég fékk veður af rýmingunni örstuttu áður en okkur var sagt að koma niður í Herðubreið. Ég stóð og snérist í kringum sjálfa mig í fimm mínútur þar til dóttir mín kom heim. Ég spurði hana hvað ég ætti að taka með mér og hún sagði mér að taka tannburstann og hlýja peysu. Ég dró fyrir gluggana og fór með það,“ bætir hún við.

Fumlaust og rólegt

Ákveðið var að rýma Seyðisfjörð um klukkutíma eftir að mikil aurskriða féll á utanverðan fjörðinn á föstudag og olli þar miklu tjóni. Enginn slasaðist þó í skriðunni. Íbúum var stefnt í félagsheimilið Herðubreið þar sem þeir fengu fyrirmæli um næstu skref sem var að fara upp í Egilsstaði. Þar var tekið á móti þeim með mat og hjálpað við að finna næturstað, en hótel á svæðinu opnuðu dyr sínar.

„Maður hefur heyrt fréttir af fólki annars staðar, sem hefur þurft að yfirgefa heimili sín út af til dæmis snjóflóðum, en við höfum ekki upplifað þetta fyrr. Þetta gekk samt fumlaust fyrir sig og það voru allir rólegir. Eldra fólkið í bænum, sem sumt er orðið eitt, var passað bæði á leiðinni upp eftir.

Barnabörnin okkar voru nánast spennt, þetta var hraðferð upp í Hérað. Það var enginn grátur eða neitt. Þegar maður keyrði út úr bænum og horfði í spegilinn hugsaði maður hvað myndi gerast. Þær hugsanir róuðust á leiðinni og gleymdust í smá stund uppi á Héraði.“

Alls staðar mætt hlýju viðmóti

Guðjón og Hrönn fengu inni á Hótel Valaskjálf ásamt börnum, tengdabörnum og barnabörnum – alls 12 manns. „Hálftíma eftir að við fórum vorum við komin með herbergi í þar. Ég ætlaði að borga þegar við fórum. Mér var sagt að hér yrði ekkert borgað og óskað góðrar ferðar heim. Hver borgar verður að koma í ljós.

Alls staðar mættum við hlýju viðmóti. Það var ofboðslega vel tekið á móti okkur. Það lá við að fólk biði okkar á veginum. Það var alveg sama við hvern var talað, allir voru tilbúnir að hjálpa og við máttum hringja heim til fólks ef eitthvað vantaði.

Við munum ekki gleyma þessu, það er alveg útilokað. Við finnum svo út hvernig við þökkum fyrir okkur. Við höfum rætt þetta í okkar hópi,“ segir Guðjón.

Þau nefna að vel hafi gengið að flytja fólk af sjúkrahúsinu en því var fundinn staður á hjúkrunarheimilinu Dyngju. Heilbrigðisstarfsfólk af Seyðisfirði tók síðan vaktir þar til að vera með sínum skjólstæðingum.

Yngra fólkið órólegra

Stöðug umferð lá yfir Fjarðarheiði eftir að íbúum var leyft að fara heim aftur klukkan 14:30 í dag. Sumir fóru þó til baka og vildu ekki vera yfir nóttina. Hrönn og Guðjón voru snögg til baka og benda á að þau hafi ekki tekið mikið með sér. Þau telja flesta í kringum þau hafa stefnt á heimferð þótt fólk hafi rætt sín á milli hvað takið við.

„Ég kvíði fyrir að horfa á þetta. Þetta gerðist nánast í myrkri og við sáum ekkert. Ég vil ekki fara núna í kvöld,“ segir Hrönn sem er fæddur og uppalinn Seyðfirðingur og á æskuminningar af svæðinu þar sem fyrstu skriðurnar féllu á bæinn á þriðjudag og aftur aðfaranótt föstudags.

„Maður sér áhyggjusvip á fólki. Sérlega virðist unga fólkið órólegt. Þeir sem eru orðnir 40-50 ára hafa upplifað hremmingar hér,“ segir Guðjón og rifjar upp snjóflóðið sem eyðilagði verksmiðju Hafsíldar í mars 1995. Þá, líkt og nú, varð mikil mildi að enginn slasaðist.

„Við vorum upp í skíðaskála að horfa fótboltaleik. Þar höfðum við gervihnattadisk. Við ætluðum með snjóbílnum en þurftum að bíða eftir tveimur sem þýddi að bíllinn var tilbúinn þegar flóðið kom. Þeir sem voru að vinna í verksmiðjunni voru í kaffi inn í skúr og hann slapp. Aldan sem myndaðist við flóðið fór upp að pósthúsinu við gamla Austurveginn.“

Seyðfirðingar stöppuðu stálinu hvor í annan

Almennt hafa þau trú á að Seyðfirðingar hyggi á heimkomu og ætli sér að byggja bæinn upp aftur. „Við ætlum að standa saman og byggja upp aftur,“ segir Hrönn.

„Þegar fólk settist niður saman, sem ekki endilega hittist dag frá degi, fór það að tala saman um hvernig fólk hefði það voru flestir rólegir. Menn gengu um salinn [í fjöldahjálparmiðstöðinni] á morgnana, jafnvel aftur í kvöldmatnum og stöppuðu stálinu í fólk.

Þetta er samt einstaklingsbundið. Sumir ákveða að fara þegar áföll dynja yfir og það er morgunljóst að einhverjir fara en ég held það verði ekki fólksflutningar í stórum stíl. Fólk komið yfir miðjan aldur sem býr á okkar svæði er ekki að fara neitt.

Fólk er bjartsýnt á að þurfa ekki að fara aftur að heiman um jólin. Ég held samt að ef annað áfall kæmi yfir þá myndi það setja strik í reikninginn hjá mörgum. Það voru margir sem undirbjuggu að fara suður yfir jólin og voru búnir að tryggja sér húsnæði. Ég hvatti fólk til að leyfa deginum að líða og ég held að núna ætli enginn að fara,“ segir Guðjón.

Þau búa á Hlíðarvegi, austan Fjarðarár, rétt við línuna sem dregin var í dag og skilur að svæðið sem fólk mátti koma aftur á og ekki. „Það eru kannski sérstaklega þeir sem búa undir fjallinu sem hugsa sér til hreyfings. Þegar við byggðum húsið okkar fyrir um 40 árum þurftum við að grafa djúpt til að koma niður á fast og við vitum að það er þannig víðar hér í kringum okkur. Það virðist því ekki hafa verið mikið hér um skriður í gamla daga en annars staðar. En byggðin sem er í fjallinu stendur á grjóti,“ segir Guðjón.

Stóla nú á þá sem ráða

En Seyðfirðingar þurfa stuðning við verkefnin sem framundan eru. Þau benda á að efla þurfi ofanflóðavarnir og vinna skipulag og finna byggingaland á Seyðisfirði til frambúðar. Síðan eru það Fjarðarheiðargöng.

„Við stólum á stjórnmálamennina okkar. Þeir hafa þegar gefið einhverjar yfirlýsingar, við höfum heyrt af þeim áður en ég held að í svona áföllum sé staðið við þær. Það hefur verið fundað um ofanflóðamál hér síðustu 4-5 ár, einkum þó um snjóflóðavarnir hinu megin.

Við höfum þegar vilyrði fyrir því að þetta stóra og öfluga sveitarfélag sem við tilheyrum nú standi með okkur og taki frumkvæðið. Síðan er það Fjarðarheiðin sem legið hefur sem mara á öllum hér. Við vitum að göng undir hana kosta mikla peninga en ég held að þau séu að fara í gang og verði ekki afturkippur, þótt það reyni á fjárhag ríkisins út af Covid.

Hér hefur ekki verið neitt húsnæði laust síðustu tvö ár. Það hefur hópur verið að spyrja um lóðir og hús til sölu og slegist um allt sem losnar,“ bætir Guðjón við.

„Þetta er það sem við búum við hér“

Þrátt fyrir að vera uppalinn í Reykjavík kveðst Guðjón hvergi annars staðar vilja vera. „Ég verð alltaf hálflasinn eftir að hafa verið þar í nokkra daga. Hér er æðislega gott að vera. Þetta er það sem við búum við hér. Landið okkar er allt svona, við erum að glíma við mikil öfl. Þar er nánast alls staðar eitthvað. Ef það gýs nálægt höfuðborginni er allt komið í óefni þar.“

Þau segja lykilefni í næstu skrefum að bæjarbúar standi áfram saman og hugsi vel hver um annan. „Þetta er áfall að einhverju leyti fyrir alla,“ segir Hrönn.

„Það var rætt við okkur í dag að bestu sérfræðingarnir í að taka um hvert annað erum við sjálf. Þá finnur fólk stuðninginn. Aðrir þurfa meiri hjálp en ég veit hún verður til staðar,“ segir Guðjón að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.